spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaAndleysi í Síkinu - Valur gerði góða ferð norður

Andleysi í Síkinu – Valur gerði góða ferð norður

Tindastóll tók á móti Val í Dominos deild karla í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld. Fyrir leikinn höfðu bæði lið tapað tveimur leikjum og unnið einn og útlit fyrir hörkuleik. Svo fór þó ekki þó vissulega hafi náðst upp sæmileg stemning í varnarleik beggja liða þá var svolítið eins og lítil stemning væri fyrir leiknum, einkum hjá heimamönnum þegar líða fór á leikinn.

Heimamenn í Tindastól byrjuðu betur og náðu snemma forystu með ágætri hittni fyrir utan, 12-4 eftir þrjár mínútur eftir 4 góða þrista. Svo hægðist á leiknum en Tindastóll var að spila fína vörn og leiddu 20-13 eftir fyrsta leikhlutann.  Valsmenn komu ákveðnir til leiks í öðrum leikhluta og þá einkum Jón Arnór Stefánsson. Eftir að Viðar hafði komið heimaliðinu í 22-13 hrökk gamla brýnið í gang, setti þrjá þrista og þegar þrjár og hálf mínúta var liðin af leikhlutanum var staðan orðin 25-22 og miklir hnökrar komnir í sóknarleik Tindastóls. Shane Glover átti við meiðsli að stríða á öxl og var ekki með í kvöld og það sýndi sig fljótlega að Tindastól vantaði fókuspunkt inni í teignum og söknuðu síns besta sóknarmanns mikið. Valsmenn voru að spila fína vörn á Tomsick, stigu vel út á móti honum í skrínum og hann komst hvorki lönd né strönd. Hægt og bítandi náðu Valsmenn yfirhöndinni og fóru inn í hálfleik með 5 stiga forystu eftir troðslu frá Kristófer og flautuþrist frá Finni Atla eftir mikið klafs hjá báðum liðum.

Valur byrjaði svo seinni hálfleikinn betur og náðu fljótlega 10 stiga forystu eftir gott and1 play frá Jóni Arnóri. Udras svaraði með þristi en Valsmenn bættu bara hægt og sígandi í og um miðjan leikhlutann var forystan orðin 13 stig 41-54. Viðar Ágústsson sem var að spila einna best heimamanna minnkaði muninn í 7 stig með tveimur góðum þristum en Valsmenn svöruðu og staðan 51-60 að loknum þriðja leikhluta sem er lægsta stigaskor sem undirritaður man eftir hjá Tindastól í Síkinu eftir 3 leikhluta.

Pétur Rúnar skoraði fyrstu 4 stig lokaleikhlutans og minnkaði muninn í 5 stig en alltaf svöruðu Valsmenn, núna með 6-0 spretti og munurinn aftur kominn yfir 10 stigin.  Einhvernveginn virtist sem það væri sama hvað Tindastólsmenn reyndu, Valsmenn áttu alltaf svar og vonleysið fór að verða áberandi í liði heimamanna. Eftir þrist frá Pavel sem kom stöðunni í 58-69 var ekkert skorað í rúmar 2 mínútur og það lá í loftinu að Valsmenn myndu sigla þessu heim án teljandi erfiðleika. Það varð líka raunin og þegar farið var að pressa og brjóta á Valsmönnum, 9 stigum undir og 32 sekúndur eftir virkaði það bara hálf vandræðalegt fyrir lið og þjálfara. Leikmenn á bekknum göntuðust og virtust löngu búnir að gefa það upp á bátinn að ná einhverju úr leiknum og það var einhvernveginn einkennandi fyrir það stemningsleysi og deyfð sem hefur háð liðinu það sem af er móti, einkum á heimavelli. Þó töluvert gengi á þessar síðustu 30 sekúndur var aldrei hætta á að Valur færi að missa þetta niður.

Viðar Ágústsson var einna sprækastur heimamanna, spilaði fína vörn eins og hann gerir alltaf og bætti við frábærri hittni en hann klikkaði bara á einu skoti í leiknum sem skilaði 15 stigum í hús. Jaka var með 16 stig og 8 fráköst en á töluvert inni verður að segjast. Tomsick átti í miklum erfiðleikum og hitti aðeins úr 2 skotum af 15 utan af velli.  Hjá Valsmönnum var Jón Arnór með 17 stig og Kristófer með 18 og þeir virtust alltaf geta stigið upp ef stig vantaði þó þeir hafi varla farið úr 3ja gír. Finnur náði að rúlla mannskapnum vel og ekki var að sjá þreytu á Valsliðinu í leiknum.

Tindastólmenn þurfa að fara að finna sitt grúv ef ekki á illa að fara í deildinni. Fjarvera áhorfenda virðist hafa gríðarleg áhrif á liðið eins og þrjú töp á heimavelli sýna.

Myndasafn (Hjalti Árna)

Mynd: Jón Arnór átti fínan leik

Umfjöllun og myndir: Hjalti Árna

Fréttir
- Auglýsing -