Stjörnumenn fengu Njarðvíkinga í heimsókn í síðustu umferð deildarkeppninnar. Stjarnan hefur ekki skinið neitt sérstaklega skært síðustu vikurnar, tap gegn lánlausum Keflvíkingum og vonbrigði í bikarkeppninni svo dæmi séu nefnd hafa skyggt á hana. Garðbæingar eygja þó enn von um deildarmeistaratitil með sigri fari svo að Stólarnir lúti í lægra haldi fyrir Valsmönnum í kvöld.
Njarðvíkurskrímslið hefur vaxið og vaxið á tímabilinu og getur ekki lengur falið sig. Að vísu er deildarmeistaratitillinn ekki í boði en annað sætið er skrímslisins með 11+ sigri í kvöld og myndu um leið senda Stjörnuna niður í þriðja sætið. Bæði lið hafa því að einhverju að keppa, svona fyrir utan það að liðin hljóta að vilja fara inn í úrslitakeppnina með ferskan sigur í farteskinu.
Kúlan: ,,Skrímslið hefur betur í kvöld, en aðeins með 7 stigum, 90-97.“
Byrjunarlið
Stjarnan: Ægir, Hilmar, Febres, Orri, Rombley
Njarðvík: Shabazz, Veigar, Dwayne, Mario, Milka
Gangur leiksins
Gestirnir tóku frumkvæðið í leiknum með Shabazz og Dwayne í broddi fylkingar og leiddu með nokkrum stigum. Heimamenn sneru hins vegar alveg við blaðinu um miðjan leikhlutann – Orri jafnaði með nettum þristi í 13-13 eftir nákvæmlega 5 mínútna leik og Stjarnan seig framúr. Rúnar Ingi fékk sig fullsaddan og tók leikhlé þegar 1 og hálf lifði af fyrsta leikhluta eftir góðan sprett Stjörnupilta. Heimamenn voru þá komnir 8 yfir, 30-22. Aðeins 2 stig bættust við í leikhlutanum og þau voru Garðbæinga, staðan 32-22 eftir einn.
Stjörnumenn bættu fljótt 5 stigum við forskotið í byrjun annars leikhluta og hótuðu að ganga frá þessu strax. Skrímslið bærði þá svolítið á sér, það varð líflegra varnarlega sem jafnframt hafði jákvæð áhrif á sóknarleikinn. Um miðjan leikhlutann höfðu gestirnir tekið á 12 stiga sprett, aðeins 3 þriggja stiga munur í stöðunni 37-34. Super-Mario minnkaði svo muninn í 2 stig, 43-41, með þristi þegar 3 mínútur voru til pásunnar. Dwayne missti þá aðeins hausinn, fékk dæmda á sig óíþróttamannslega villu og gestirnir misstu fókus um stund. Heimamenn gengu á lagið, röðuðu niður stigum og leiddu með 9 í hálfleik, staðan 54-45.
Shaq Rombley hafði verið í villuvandræðum nánast frá upphafi leiks og fékk sína fjórðu villu snemma í þriðja leikhluta. Super-Mario leiddi í framhaldinu sína menn upp úr ruglinu frá því í lok fyrri hálfleiks, smellti tveimur þristum og leikurinn galopinn. Milka nýtti sér svo Shaq-leysið og kom sínum mönnum yfir um miðjan leikhlutann með körfu góðri og víti, staðan 58-59. Restin af þriðja leikhluta fór svo full mikið fram á vítalínunni að mati undirritaðs en Ægir átti lokaorðið í leikhlutanum og jafnaði leika í 78-78 með þristi.
Brynjar Kári kom inn af bekknum hjá gestunum í fjórða leikhlutanum og skilaði frábærum mínútum. Hann átti sinn þátt í því að þeir grænu hófu lokafjórðunginn með 7 stigum í röð og tóku stjórnina í leiknum. Þegar fjórar mínútur voru eftir náðu gestirnir 10 stiga forystu, 86-96, og annað sætið í sjónmáli! Tilfinningin var svolítið sú að leikurinn væri jafn á þessum tímapunkti enda var hann það í ákveðnum skilningi. Njarðvíkingar leiddu svo 92-103 skömmu síðar og markmiðinu náð fyrir utan það að enn voru 90 sekúndur eftir af leiknum! Það væri hægt að kalla það hlutasigur hjá heimamönnum að ná að svara aðeins fyrir sig, mest munaði um svakalegan töffaraþrist frá Ægi þegar um 30 sekúndur voru eftir og munurinn þá aðeins átta stig í stöðunni 97-105. Stjörnupiltar náðu svo góðu stoppi í framhaldinu og tryggðu sér þannig annað sætið í deildinni. Lokatölur urðu 103-110 í góðum andlegum sigri gestanna, en þó ekki fullnaðarsigri ef svo má segja.
Menn leiksins
Dwayne Lautier Ogunleye missti aðeins hausinn eins og fram hefur komið en var samt sem áður bestur gestanna. Hann setti 27 stig, tók 6 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Aðrir skiluðu algerlega sínu og rétt að minnast aftur á góðan leik hjá Brynjari Kára af bekknum.
Ægir var nánast með sömu tölur og Dwayne, setti 26 stig, tók 5 fráköst og gaf 7 stoðsendingar. Hilmar Smári setti einnig 26 stig fyrir Stjörnumenn.
Kjarninn
Stjörnumenn hljóta að hafa áhyggjur af stöðu mála. Þetta er alls ekki tímapunkturinn til þess að sitja fastur í einhverri lægð. Frammistaðan hefur kannski ekki verið gersamlega afleit neitt í síðustu leikjum en hún hefur ekki verið að skila sigrum. Baldur og hans teymi þurfa að finna einhvern neista til að koma liðinu aftur á lappir. Verkefnið í 8 liða úrslitunum er ærið og kunnugt – ÍR-liðið og Gettó-arnir bíða þeirra!
Njarðvíkingar náðu ekki fullnaðarsigri í kvöld og enda í þriðja sætinu…sem þeir ættu nú að vera farnir að þekkja býsna vel! En það má færa sannfærandi rök fyrir því að það sé mun mikilvægara að koma á siglingu og með sjálfstraust inn í úrslitakeppnina en að færast einhverju einu sæti upp í deildinni. Njarðvíkingar mæta Álftnesingum í fyrstu umferð úrslitakeppninnar og það gæti orðið hörku sería. Vonandi fer hún ekki of mikið fram á vítalínunni, en Rúnar Ingi lofaði a.m.k. góðum körfubolta í viðtali eftir leik!
Myndasafn (Gunnar Jónatansson)