Stjarnan átti ekki í miklum erfiðleikum með andlaust lið Hauka þegar að liðin mættust á Ásvöllum í gær. Bæði lið voru langt frá því að spila sinn besta leik og var það kannski Stjörnunni til happs hversu lítinn áhuga leikmenn Hauka virtust hafa á því að spila þennan leik og unnu gestirnir úr Garðabæ sannfærandi 68-89.
Leikurinn var jafn til að byrja með og stefndi alveg eins í hörku nágrannaslag. Það átti eftir að breytast snögglega um lok fyrsta leikhluta þegar að Stjörnumenn komust níu stigum yfir og gáfu þannig tóninn af því sem koma skildi. Haukar náðu að minnka muninn áður en leikhlutanum lauk og leiddu Stjörnumenn með sex stigum eftir leikhlutann.
Stjarnan hélt áfram að salla niður stigum og auka muninn á liðunum. Áður en að leikhlutinn var hálfnaður var Stjarnan kominn 15 stigum yfir og í raun ekkert sem að benti til þess að Haukar myndu gera atlögu að mun Stjörnunnar. Sævar Ingi Haraldsson og Emil Barja, leikstjórnendur Hauka, voru komnir í villu vandræði og sáust því lítið í leikhlutanum og munaði Haukum mikið um þá því þegar þeir voru inn á þá var örlítið líf í Haukum.
Seinni hálfleikur var í raun bara formsatriði fyrir Stjörnuna sem að fann leiðina að körfu Hauka frekar auðveldlega og þegar að fimm mínútur lifðu leiks þá var eins og Haukaliðið biði eftir því að leikurinn myndi klárast.
Ljósasti punkturinn í leik Hauka var án nokkurs vafa Steinar Aronsson sem kom af bekknum í fjórða leikhluta en hann skoraði 10 stig og stal 2 boltum á þeim rúmu 10 mínútum sem hann spilaði.
Teitur Örlygsson þjálfari Stjörnunnar sagði að hans menn hafi ekki þurft að hafa mikið fyrir sigrinum þrátt fyrir að þetta hafi verið allt annað en góður leikur hjá Stjörnunni.
„Þetta var nú ekki góður leikur hjá okkur. Það komu inn glettilega góðir kaflar inn hjá okkur á milli og það nægði en á mörgum stundum vorum við langt frá okkar besta.“
Aðspurður að því hvort að honum fyndist pressa vera á Stjörnuliðið að enda tímabilið með titli í ljósi gengi þess í fyrra og spáa fyrir þetta tímabil sagði Teitur.
„Pressan virðist vera það mikil að hin liðin eru búin að bæta við sig manni sem að ætla að taka þátt í þessu og það er bara gleðilegt. Við erum með nákvæmlega sama kjarna en missum að vísu fjóra menn og þar á meðal einn besta manninn eftir áramót í Renato en það er virkilega ánægjulegt að allir hafi svona rosalega trú á okkur.“
Sigurjón Lárusson kom til liðs við Stjörnuna á nýjan leik eftir að hafa verið frá liðinu í nokkur tímabil og er alveg ljóst að hann er mikill happafengur fyrir liðið en hann átti stórleik í síðustu umferð og var mikilvægur liðinu gegn Haukum í gær.
„Sigurjón var ekki að æfa körfubolta í fyrra og var í annarri deildinni þar á undan þannig að það er ekki eins og hann hafi verið einhver stjarna í úrvalsdeild á undan því. Hann er klár viðbót við liðið og leggur sig alltaf fram eins og við sáum hérna í kvöld. Mér fannst Grjóni flottur sérstaklega í seinni hálfleik. Þetta er mikið teamwork hjá okkur og hlutverkaskipanin er mjög skýr. Keith kemur svo inn í þetta hjá okkur sem hrein viðbót því að hann er ekki að taka af einum eða neinum þannig að þetta verður bara skemmtilegt,“ sagði Teitur og bætti svo við að Stjarnan hefur ekki farið í gegnum erfiðasta prógrammið í upphafi móts og að þetta ætti bara eftir að verða erfiðara og erfiðara.
Ívar Ásgrímsson, aðstoðarþjálfari Hauka, var sammála Teiti með það að Stjarnan hafi ekki þurft að hafa mikið fyrir sigrinum.
„Við vorum alveg skelfilegir og byrjum þannig að við bara joggum fram og til baka og það lýsti bara hvernig við vorum allan leikinn,“ sagði Ívar allt annað en sáttur með leik Haukaliðsins.
„Það vantaði alla baráttu og vorum andlausir. Þetta var skelfilegt í einu orði sagt,“ bætti Ívar við.
Ívar vildi ekki meina að neitt sérstakt væri að plaga Haukaliðið en síðustu tveir leikir liðsins hafa í raun endað í svipuðum gír. Hann sagði leikmenn taka vel á því á æfingum og kasta sér á eftir boltum og berjast.
„Pétur hefur lagt mikið upp úr varnarleiknum á æfingum og þar eru menn að ýta og berja frá sér en svo þegar komið er í leiki þá eru menn bara eins og aumingjar, það er bara munurinn.“
Ívar vonaðist til að það færi að styttast í sigur sinna manna en sagði að hann myndi ekki koma fyrr en að menn fari að leggja sig fram.
Stigahæstur í liði Stjörnunnar var Keith Cothran með 26 stig og honum næstur var Jovan Zdravevski með 20 stig og 8 fráköst.
Hjá Haukum var Jovonni Shuler með 22 stig og 11 fráköst og Steinar Aronsson gerði 10.
Mynd: Keith Cothran var öflugur fyrir Stjörnuna – [email protected]