Hinn bráðefnilegi Almar Orri Atlason hefur ákveðið að skipta um skóla vestanhafs í bandaríska háskólaboltanum og ganga til liðs við Miami RedHawks frá Bradley.
Almar er 20 ára gamall og að upplagi úr KR, en hann hefur síðustu ár leikið í Bandaríkjunum. Þá hefur hann verið burðarás í öllum yngri landsliðum Íslands á síðustu árum og var á síðasta ári kominn í æfingahóp A landsliðs.
Skólinn sjálfur er staðsettur í Oxford borg Ohio ríkis Bandaríkjanna og leikur í Mið-Ameríku hluta efstu deildar háskólaboltans. Í 17 skipti hefur liðið komist í Marsfárið, lokamót háskólaboltans, en síðast voru þeir þar árið 2007.
Nokkrir sögufrægir leikmenn hafa leikið með liði Miami, til þess að nefna einhverja má nefna Ron Harper sem gerði garðinn frægan með Chicago Bulls á tíunda áratug síðustu aldar og Wally Szczerbiak sem lék meðal annars fyrir lið Minnesota Timberwolves í NBA deildinni.