spot_img
HomeFréttirAllt eða ekkert á fimmtudag: Grindavík jafnaði metin

Allt eða ekkert á fimmtudag: Grindavík jafnaði metin

23:24 

{mosimage}

 

 

Oddaleik þarf til að skera úr um hvort það verði Njarðvík eða Grindavík sem komast í úrslit Iceland Express deildar karla í körfuknattleik. Liðin mættust í fjórða leiknum í Röstinni í kvöld þar sem Grindvíkingar leiddu mest allan leikinn og höfðu að lokum sanngjarnan 81-71 sigur á Íslandsmeisturunum.

 

Mikill taugatitringur var í Röstinni í kvöld og sást það best á því að liðin fengu ekkert framlag frá bekknum í kvöld. Aðeins byrjunarliðsmenn liðanna skoruðu í kvöld og þeirra atkvæðamestur var Jonathan Griffin með 28 stig fyrir Grindavík. Þá átti Páll Kristinsson frábæran dag með þeim gulu en hann gerði 12 stig, tók 13 fráköst, stal 5 boltum og varði 2 skot og lék glimrandi fína vörn á miðherja Njarðvíkinga. Brenton Birmingham var með 17 stig fyrir Njarðvíkinga og tók 8 fráköst en hann var á köflum mistækur og hefur í síðustu tveimur leikjum í Röstinni tapað alls 10 boltum.

 

Páll Axel Vilbergsson opnaði leikinn með þriggja stiga körfu en Brenton svaraði í sömu mynt fyrir Njarðvíkinga. Upphafsleikhlutinn var hraður og skemmtilegur en Igor Beljanski fann sig vel fyrir Njarðvíkinga og gerði 7 stig fyrir Njarðvík í röð og staðan 5-10 Njarðvíkingum í vil eftir nokkurra mínútna leik. Heimamenn létu upphafsáhlaup Njarðvíkinga ekki slá sig út af laginu heldur söxuðu á forskotið og komust yfir 18-17 eftir körfu frá Adam Darboe. Leikhlutanum lauk svo í stöðunni 23-20 eftir þriggja stiga körfu frá Jonathan Griffin þegar um mínúta var eftir af leikhlutanum en ekkert var svo skorað síðustu mínútuna.

 

Getuleysi liðanna í sókninni hélt áfram frá síðustu mínútu fyrsta leikhluta inn í annan leikhluta og þegar 5 mínútur voru til hálfleiks höfðu liðin gert samtals 6 stig og staðan 25-24 Grindavík í vil. Flóðgáttirnar brustu á endanum og þá skiptust liðin á því að skora en Grindvíkingar tóku forystuna á lokasprettinum með tveimur sterkum þriggja stiga körfum frá Jonathan Griffin. Jóhann Árni Ólafsson gerði svo síðustu stigin fyrir hálfleik og liðin gengu til búningsklefa í stöðunni 42-37 Grindavík í vil.

 

Igor Beljanski fékk sína þriðju villu í upphafi þriðja leikhluta en þá tók Friðrik Stefánsson við keflinu og barðist vel fyrir Njarðvíkinga í bæði vörn og sókn. Jóhann Árni Ólafsson jafnaði metin fyrir Njarðvík í 69-69 með þrist en lengra komust Njarðvíkingar ekki í leikhlutanum og höfðu Grindvíkingar yfir 63-56 fyrir loka fjórðunginn.

 

{mosimage}

 

Í upphafi fjórða leikhluta virtist sem Njarðvíkingar væru að komast upp að hlið Grindvíkinga að nýju og Friðrik Stefánsson minnkaði muninn í 68-66 og Jeb Ivey jafnaði í 68-68 skömmu síðar. Þegar aðeins nokkrar mínútur voru til leiksloka virtist Jeb Ivey ætla að taka leikinn í sínar hendur en honum voru mislagaðar hendur í kvöld og var nánast étinn lifandi af Grindavíkurvörninni. Ljóst var að þeir gulu vildu miklu mun meira hafa sigur í kvöld og sú varð raunin eftir flottan lokasprett heimamanna. Lokatölur 81-71 og því verður oddaleikur í Ljónagryfjunni á fimmtudag.

 

Enn eina ferðina var Þorleifur Ólafsson að koma Jeb Ivey úr jafnvægi með gríðarlega sterkri vörn og í kvöld hélt hann Ivey í aðeins 14 stigum. Páll Axel var einnig að leika vel en hann gerði 23 stig. Njarðvíkingar söknuðu sárlega stiga frá þeim Guðmundi Jónssyni og Agli Jónassyni af bekknum í kvöld en hvorugur þeirra komst á blað.

 

Á fimmtudag ræðst það hvort liðið kemst í úrslit þegar liðin mætast í oddaleik í Ljónagryfjunni. Ljóst er að það verður fjölmennt í Ljónagryfjuna svo það er ráð að mæta snemma á fimmtudag og sjá með eigin augum hvort liðið mun berjast um Íslandsmeistaratitilinn við KR eða Snæfell.

 

Tölfræði leiksins

 

Gangur leiksins:

3-8, 15-15,23-20

25-24,29-29,42-37

47-41, 51-51,63-56

65-58,77-69,81-71

 

www.vf.is

 

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -