Allen Iverson hefur gefið það formlega út að hann sé hættur að reyna að komast að hjá NBA liði og hafi lagt skóna á hilluna hvað það varðar, nú nokkrum árum eftir að NBA lið hættu að reyna að fá hann til að spila fyrir sig.
Iverson var ekki alltaf með hausinn á herðunum og hefur ekki alltaf tekið vel ígrundaðar ákvarðanir í lífinu. Á körfuboltavellinum var hann hins vegar stórkostlegur leikmaður svo ekki meira sé sagt. Rétt yfir 180 cm eldibrandur sem var ekki hræddur við neitt hvort sem innan vallar eða utan. Allt frá því í miðskóla fylgdu honum vandamál og óheppileg atvik. Árið 2001 leiddi hann Philadelphia 76ers í úrslitin á móti Lakers þar sem þeir töpuðu í 5 leikjum, þrátt fyrir hetjulega baráttu Iverson í gegnum meiðsli víðsvegar um líkamann. Hann var sendur til Denver Nuggets árið 2006 eftir ítrekaða árekstra við stjórnendur Sixers liðsins og síðar lék hann með Pistons og Grizzlies. Á seinni tímum átti hann í vandræðum með Bakkus og eyddi frá sér öllum auðæfunum sem hann hafði aflað á ferlinum.
Þrátt fyrir gallaðan persónuleika var Iverson frábær körfuboltaleikmaður og á þeim 10 árum sem hann lék fyrir Philadelphia 76ers skoraði hann 28,1 stig að meðaltali í leik sem er það hæsta í sögu félagsins. Hann er annar á heildarstigalista félagsins með 19.583 stig á þessum tíma. Eftir að Iverson fór frá Sixers vann félagið ekki eina umferð í úrslitakeppninni þar til 2012 þegar Sixers unnu Bulls óvænt eftir að Derrick Rose sleit krossbönd í lok fyrsta leiks seríunnar.