spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaÁlftnesingar skrefi nær Subway deildinni eftir sigur á Flúðum

Álftnesingar skrefi nær Subway deildinni eftir sigur á Flúðum

Þegar leikmenn og þjálfarar toppliðs Álftaness mættu í Gróðurhúsið á Flúðum í kvöld vissu þeir að með sigri kæmist lið þeirra mjög nærri úrvalsdeildarsæti á næstu leiktíð. Hefði Hamar tapað í Borgarnesi í kvöld væri sæti Álftnesinganna í deild þeirra bestu tryggt. Það gerðist hins vegar ekki. Álftanes þarf því að ná að sigra einu sinni til viðbótar áður en þeir fagna settu markmiði. Liðið gerði þó það sem það gat gert í kvöld og vann sigur á Hrunamönnum í hörkuleik, 114-121.  

Lykilmenn í liði heimamanna eru meiddir. Í kvöld léku þeir án fyrirliðans og leikstjórnandans Eyþórs Orra Árnasonar og Friðriks Heiðars Vignissonar en þeir hafa báðir verið byrjunarliðsmenn í öllum leikjum tímabilsins. Haukur Hreinsson sem hefur byrjað marga leikina í vetur er líka meiddur sem og Orri Ellertsson. Þá hefur Arnór Eyþórsson sem kom um tíma á láni frá Þór Þorlákshöfn sagt sig frá lánssamningnum við Hrunamenn. Bjartsýnustu stuðningsmenn Hrunamanna voru því ekki bjartsýnni en svo að þeir vonuðust eftir jöfnum leik gegn toppliðinu fram yfir hálfleik.

Álftnesingar byrjuðu leikinn betur en heimamenn og það leit satt best að segja út fyrir að fyrirstaðan yrði lítið. Annað kom þó á daginn. Hrunamenn náðu með seiglu að hanga í gestunum og í síðari hálfleik var munurinn nokkrum sinnum bara 5-2 stig og einu sinni náðu heimamenn að jafna leikinn.

Hrunamenn léku mismunandi varnarafbrigði, voru oftast í svæðisvörn, Álftnesingar héldu sig að mestu við að spila maður á mann, en þó með tvöföldun á Ahmad Gilbert þegar hann fór á ferðina, en svo þéttu þeir líka í teignum við og við og lokuðu leiðinni að körfunni með svæðisvarnarafbrigðum. Álftnesingar náðu að hreyfa boltann ágætlega og fengu mörg opin skot sem fóru flest rétta leið. Skotnýting liðsins var einstaklega góð. Cedrick Bowen var með 100% nýtingu úr þriggja stiga skotum, Srdan Stojanovic hitti 6 þristum og fjórir aðrir leikmenn liðsins hittu 50% skota sinna eða meira. Hrunamenn hittu líka vel. Ahmad Gilbert setti niður sjö þrista og Yngvi Freyr Óskarsson og Óðinn Freyr Árnason fjóra.

Á lokamínútunum náðu Hrunamenn næstum að vinna upp forskot Álftnesinga þegar þeir stálu boltanum tvisvar í röð og skoruðu körfur. Það fór um gestina en þetta lokaáhlaup heimamanna kom of seint.

5 leikmenn Álftaness léku meira en 30 mínútur í leiknum. Þeir skiluðu allir prýðilegu sóknarframlagi. Srdan var þeirra atkvæðamestur með 39 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar, Dúi Þór gaf 12 stoðsendingar og skoraði 16 stig. Dino lék afar vel, Cedrick var traustur og Eysteinn steig upp þegar liðið þurfti á framlagi hans að halda í seinni hálfleik.

Dagur Úlfarsson og Óðinn Freyr tóku sæti í byrjunarliði Hrunamanna, Hringur lék stærra hlutverk en alla jafna og Páll Magnús Unnsteinsson var kallaður úr ungmennaflokki félagsins í mannahallærinu og skilaði sínu með stæl. Yngvi Freyr átti ágætan leik, einkum í síðari hálfleik, Sam Burt var frábær, skoraði 25 stig og tók 12 fráköst en framlagshæstur að vanda var Ahmad Gilbert með 44 stig, 7 fráköst, 7 stoðsendingar og 5 stolna bolta.

Í næstu umferð leika Hrunamenn gegn ÍA á Akranesi og Álftnesingar leika gegn Skallagrími á Álftanesi og geta með sigri í þeim leik tryggt liðinu sigur í 1. deildinni á leiktíðinni.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Brigitte Brugger)

Fréttir
- Auglýsing -