spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaÁlftnesingar leiddu frá byrjun til enda í Kaldalónshöllinni

Álftnesingar leiddu frá byrjun til enda í Kaldalónshöllinni

Álftnesingar lögðu Þór nokkuð örugglega í Kaldalónshöllinni í Bónus deild karla í kvöld.

Eftir leikinn er Álftanes í 5. sæti deildarinnar með 22 stig á meðan Þór er í 8. sætinu með 18 stig.

Það voru heimamenn sem leiddu leik kvöldsins frá upphafi til enda. Hægt en örugglega byggðu þeir upp forskot sitt og leiddu með tólf stigum í hálfleik. Í seinni hálfleiknum fer forskot þeirra mest í 23 stig, en Þórsarar gerðu sig aldrei líklega til þess að vinna það niður á lokametrunum. Að lokum sigraði Álftanes með tólf stigum, 108-96.

Fyrir Þór var Mustapha Heron með 23 stig, 5 fráköst og Jordan Semple skilaði 16 stigum, 13 fráköstum og 5 stoðsendingum.

Atkvæðamestir fyrir Álftanes voru Haukur Helgi Briem Pálsson með 23 stig, 8 fráköst, 4 stoðsendingar og David Okeke með 19 stig og 13 fráköst.

Lokaumferð deildarinnar er ekki á dagskrá fyrr en eftir bikarvikuna nú í lok mánaðar, en þá mætir Þór Keflavík í Blue höllinni í leik sem þeir verða líklega að vinna ef þeir ætla að vera með í úrslitakeppninni. Álftnesingar eru hinsvegar öruggir í úrslitakeppnina og vel það, en þeir mæta föllnu liði Hattar á Egilsstöðum í lokaumferðinni.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -