spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaÁlftanes vann Hauka örugglega

Álftanes vann Hauka örugglega

Álftnesingar tóku á móti Haukum í Kaldalónshöllinni í kvöld í 17. umferð Bónus deildar karla. Leikurinn var í járnum mest allan tímann en Álftanes tók yfir undir lok seinni hálfleiksins. Álftanes vann því 107-90, nokkuð öruggur sigur.

Fyrir leik

Álftanes hafði bætt við sig nýjum leikmanni, hinum tékkneska Lukas Palyza. Hann átti að styrkja liðið í að tryggja sér úrslitakeppnissæti og er reyndur landsliðsmaður hjá Tékklandi. Hann átti eftir að koma mikið við sögu í kvöld.

Haukar voru á spila á sama liði án nokkurra breytinga.

Gangur leiks

Álftanes byrjaði ágætlega þó að einn besti leikmaður þeirra, David Okeke, átti erfitt uppdráttar framan af. Justin James, bandarískur NBA leikmaður heimamanna, dró vagninn dálítið til að byrja með en Haukar létu ekki deigann síga. Þeir rauðklæddu létu boltann ganga vel sóknarlega og misstu þ.a.l. Álftanes ekki of langt frá sér.

Heimamenn voru augljóslega að spila hraðari sóknarleik sem var að virka en frábær frammistaða Deshaun Parsons hélt Haukum í þessu. Hann fann liðsmenn sína trekk í trekk í góðum færum og Haukar leiddu með einu stigi, 50-51, í hálfleik.

Haukar hleyptu Álftnesingum aðeins af stað í seinni hálfleik og voru eiginlega að elta heimamenn það sem eftir lifði leiks. Okeke fór loks í gang, Justin James hélt áfram að skora auðveldlega og leikmenn eins og Dúi Þór Jónsson og Hörður Axel Vilhjálmsson bættu ennþá frekar í.

Leikurinn var ekki í hættu seinustu 5 mínúturnar þó að Haukar hafi ekki hætt að berjast og kláruðu m.a.s. leikinn með tveimur troðslum í röð. Álftnesingar unnu þó örugglega, 107-90.

Tölfræði leiksins

Vendipunkturinn

Í byrjun fjórða leikhluta virtust Haukar gleyma því að Lukas Palyza væri leikmaður sem þyrfti að dekka og Lukas fékk nokkur galopin skot sem kom Álftanes upp í 10 stiga forystu. Hafnfirðingar misstu aðeins dampinn við þetta högg og eftirleikurinn var frekar einfaldur fyrir Álftnesinga.

Atkvæðamestir

Þó að David Okeke hafi byrjað leikinn rólega (5 stig fyrstu 17 mínúturnar) þá var hann krefjandi verkefni fyrir Hauka og skoraði á endanum 24 stig, tók 14 fráköst og var með 33 framlagsstig í leiknum. Stigahæstur fyrir Álftanes var Justin James með 26 stig.

Lukas Palyza tók 6 þrista í leiknum og setti 5 þeirra! Hann hafði verri tveggja stiga nýtingu (2/3 skot, 67%) en þriggja stiga nýtingu (5/6, 83%) og skoraði 19 stig á heildina. Ekki slæmt fyrir fyrsta leik.

Deshaun Parsons var fremstur meðal jafningja hjá Haukum með 17 stig, 9 fráköst, 6 stoðsendingar og 3 stolna bolta. Stigahæstir hjá Hafnfirðingum voru þeir Seppe D’Espalier og Steven Verplancken, báðir með 20 stig.

Tölfræðimolinn

Álftnesingar hafa ekki verið þekktir fyrir að skjóta vel fyrir utan þriggja stiga línuna en þeir breyttu því í kvöld. Þeir hafa yfirleitt tekið u.þ.b. 23 þrista í leik en aðeins sett 7-8 þeirra.

Í kvöld tóku Álftnesingar 22 þrista og settu 12 þeirra, 55% nýting. Þetta er líklegast einfari hvað tölfræði varðar, en með skyttur eins og Lukas Palyza og menn eins og Justin James að keyra á körfuna þá gætu fleiri góð þriggja stiga skot að fara opnast fyrir Álftanes.

Kjarninn

Álftanes eru komnir á réttu brautina og hafa nú unnið þriðja leikinn sinn í röð. Þetta hafa líka allt verið gegn liðum sem að þeir þurfa að setja niður fyrir sig og hafa gert örugglega. Þetta lið gæti alveg komist í undanúrslit úrslitakeppninnar með svona vel spilandi hóp.

Haukar voru inni í þessum leik í dágóða stund en eru komnir á endastöð. Þeir munu líklegast ekki geta haldið sér uppi í úrvalsdeild karla en ekkert lið má fara inn í leik gegn Haukum og slaka á. Haukar geta unnið hvaða lið sem er og nú snúast næstu leikir um stoltið og að stríða eins mörgum og þeir geta og jafnvel eyðileggja fyrir einhverjum með úrslitakeppnisvonir.

Kjartan Atli: “Hár einbeitingarstuðull í liðinu í seinni hálfleik og mikill andi.”
Friðrik Ingi: “Við spiluðum þetta frá okkur.”
Everage Richardson: “Þeir náðu áhlaupi og við gátum ekki komið til baka andlega.”

Umfjöllun: Helgi Hrafn Ólafsson

Viðtöl: Márus Björgvin Gunnarsson

Fréttir
- Auglýsing -