Álftanes lagði Skallagrím í kvöld í fyrstu deild karla, 96-83. Sigurinn nokkuð þýðingarmikill fyrir Álftanes, þar sem ekkert lið getur nú náð þeim í efsta sæti fyrstu deildarinnar og þeir hafa þar með tryggt sér sæti í Subway deildinni á næsta tímabili.Skallagrímur er eftir leikinn í 4. sæti deildarinnar, öruggir með sæti í úrslitakeppninni og nokkuð frá því að vera með heimavöll í fyrstu umferð.
Gangur leiks
Það voru gestirnir úr Borgarfirði sem byrjuðu leik kvöldsins betur. Með miklum herkjum ná heimamenn þó að vinna sig inn í leikinn og með góðum lokamínútum fyrsta fjórðungs að snúa taflinu sér í vil, 25-17. Í upphafi annars leikhlutans nær Álftanes enn betri tökum á leiknum með tveimur snöggum þristum frá Dino Stipcic og Srdan Stojanovic. Koma forystu sinni mest í 16 stig áður en Skallagrímur nær að spyrna við, en þá setja heimamenn fótinn aftur á bensíngjöfina og er forysta þeirra 23 stig þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 57-34.
Stigahæstur heimamanna í fyrri hálfleiknum var Srdan Stojanovic með 15 stig á meðan að fyrir Skallagrím var Keith Jordan með 13 stig.

Gestirnir úr Borgarnesi ná nokkuð góðu áhlaupi í byrjun seinni hálfleiksins. Þar sem þær hægt og bítandi ná að skera forskot heimamanna minnst niður í 11 stig í þriðja leikhlutanum. Á lokamínútum fjórðungsins nær Álftanes þó að stöðva blæðinguna og eru enn með nokkuð þægilega 16 stiga forystu fyrir lokaleikhlutann, 71-55.
Í fjórða leikhlutanum gera heimamenn svo vel í að hleypa Skallagrími aldrei inn í leikinn þrátt fyrir að liðið hafi vissulega verið að reyna. Undir lokin er þetta því gífurlega öruggur sigur þar sem Álftnesingar leiddu frá byrjun til enda fyrir utan örfáar mínútur í upphafi leiks, 96-83.
Kjarninn
Þessi frammistaða Álftnesinga veit á gott fyrir næsta ár. Það var virkilega vel mætt á leikinn af spenntum áhorfendum sem létu vel í sér heyra á meðan leik stóð. Liðið sjálft gerði svo einnig vel að snúa taflinu sér í vil eftir ansi brösugar upphafsmínútur.
Frá botninum og upp á 5 árum
Eftir að hafa eytt mörgum árum í neðstu deildum Íslands vann Álftanes þriðju deildina árið 2018 og strax ári seinna náðu þeir að vinna sig upp í fyrstu deildina, 2019. Þar hafa þeir svo verið síðan og er nú árið 2023 komnir upp í Subway deildina.

Hvað svo?
Þrátt fyrir að Álftnesingar séu nú öruggir upp í Subway deildina eru nokkrar umferðir eftir af deildarkeppninni og svo fara lið frá 2. sæti og niður í það 5. í úrslitakeppni um hitt sætið upp í Subway. Bæði lið eiga því leik næst komandi föstudag 17. mars, Skallagrímur tekur á móti Selfoss og Álftnesingar fá ÍA í heimsókn.
Myndasafn (Bára Dröfn)