spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaÁlftanes sterkari gegn Njarðvík

Álftanes sterkari gegn Njarðvík

Lið Álftanes sóttu heim Njarðvíkinga í kvöld í fyrsta leik liðanna í úrslitakeppninni. Gestirnir vel studdir af sínum stuðningsmönnum voru “undirhundar” kvöldsins en þrátt fyrir það komu þeir, sáu og sigruðu heimamenn þetta kvöldið með 95 stigum gegn 89 stigum heimamanna.

Það virtist nokkuð ljóst hver var fyrirskipun Kjartan Atla Kjartanssonar þjálfara Álftanes var fyrir kvöldið. Spila grimma og harða vörn, eða eins harða og dómarar leyfðu og sækja hart á varnarlega veikleika Njarðvíkinga. Þessir tveir ásar sem að Kjartan spilaði út í kvöld voru lykillinn að sigri gestana og náðu þeir þar með hinum mikilvæga heimavallarrétti í einvíginu.

Njarðvíkingar byrjuðu leikinn betur og virtust ætla að koma sér í nokkuð þægilegt 10+ stig forskot en í öðrum leikhluta óx gestunum fiskur um hrygg. Gríðarlega þéttur varnarleikur sló Njarðvíkinga algerlega út af laginu og í stað þess að taka hart á móti hörðu virtust Njarðvíkingar svolítið koðna og sóknarleikur þeirra varð bara hægari og fyrirsjáanlegri. Ofaní það þá vildu jafnvel auðveldustu skot ekki niður. Slíkt reynir gríðarlega á sálartetrið og nýttu Álftnesingar sér þetta til fulls og stuðningsmenn þeirra tóku vel undir. Veigar Páll Alexandersson gaf liði Njarðvíkur gott stuð þegar leikur þeirra var í lamasessi á loka sekúndum fyrri hálfleiks þegar hann setti niður flautukörfu (Þrist) og lagaði örlítið stöðuna fyrir heimamenn.

Seinni hálfleikur í raun hófst líkt og sá fyrri. Sprækir Njarðvíkingar fljótir að koma sér í forystu en þó náðu þeir aldrei slíkri stöðu eins og í fyrri hálfleik. Leikurinn var jafn í raun allt til loka mínútna leiksins en á þessum loka mínútum voru gestirnir skynsamir í sínum leik, einbeittir á þeim atriðum sem þjálfarinn hefur sett þeim og uppskáru sigur að lokum.

Álftnesingar eiga hrós skilið og þessi refskák endaði þeirra og leiða nú einvígið 1:0 þvert á margar spár. Allir sem komu að verki í kvöld hjá Álftanes skiluðu sínu hvort sem var varnarlega eða sóknarlega.

Gera má ráð fyrir að Njarðvíkingar leggist nú undir feld og fari yfir það sem betur mátti fara þetta kvöldið og stilla strengi. Úrslitakeppnin er byrjuð og þeir þurfa framlag frá fleiri höndum en þeir fengu í kvöld, og þá sérstaklega varnarlega.

Justin James var stigahæstur gestanna með 23 stig en hjá Njarðvík var það Khalil Shabazz sem skoraði 30 stig.

Tölfræði leiksins

Fréttir
- Auglýsing -