“Aldrei mikið í blóma í nóvember á Íslandi”

Stjarnan lagði Val í Origo höllinni í kvöld í 5. umferð Subway deildar karla, 77-86. Eftir leikinn eru liðin jöfn að stigum, hvort um sig með þrjá sigra og tvö töp það sem af er deildarkeppni.

Hérna er meira um leikinn

Arnar Guðjónsson þjálfari Stjörnunnar sagðist hafa yfir ýmsu að kvarta þrátt fyrir rífandi gengi að undanförnu:

Ég talaði við þig síðast eftir tapið gegn Þór í deildinni, þegar þið voruð þá búnir að tapa fyrstu tveimur leikjunum, þá lofaðir þú því að þetta myndi koma, ekki síst með batnandi heilsu, því liðið hefur bara verið að spila fantavel og þú hefur heldur betur staðið við orð þín… 4 í röð og ekki yfir miklu að kvarta?

Jújú…það er svo sem yfir slatta að kvarta!

Er það??

Jájá! Það væri nú meira ef það væri allt í toppi í byrjun nóvember…við þurfum að vera betri í lengri tíma í leikjum en við sýndum á köflum mjög góðan leik í kvöld.

Já, þetta var mjög kaflaskipt, leikur áhlaupa-frasinn, sem ég reyndar þoli ekki, á bara vel við þennan leik?

Já, við byrjuðum leikinn vel…en svo er það kannski bara að hluta til mér að kenna að skiptingarnar hjá mér voru á köflum bara mjög lélegar, í fyrsta skipti í vetur voru þessir 12 leikmenn saman á bekknum og það voru bara vondar línur inn á, vond lið inn á saman, balansinn var ekki alltaf réttur.

Akkúrat, en þetta var mikill liðssigur myndi ég segja, 6 leikmenn sem skora 9+ stig…svona viltu vinna leiki er það ekki?

Okkur langar að verða svona lið, lið sem getur spilað á 10+ köllum eins og við gerðum í kvöld, spila þá á hárri ákefð allan leikinn. Það vantaði svolítið í fyrri hálfleik.

Já, ég þykist hafa tekið eftir því í leikjunum hjá ykkur hingað til að varnarleikurinn hefur orðið betri og betri sem á líður leikina…

…já og það er áhyggjuefni að við byrjum ekki betur varnarlega…við erum með 10+ kalla sem við ætlum að reyna að nota í vetur og til að nýta það þurfa menn að spila vörn allan tímann sem þeir eru inn á.

Einmitt, svo geta menn bara farið útaf þegar þeir eru þreyttir!

Jújú, það nákvæmlega þannig.

Tommi var flottur í kvöld, spilaði bara mjög vel…

Já, Tommi gerði vel í kvöld…

…og hvernig finnst þér Ellisor svo koma inn í þetta…nú ertu búinn að sjá svolítið af honum…

Mér fannst ógeðslega góður í kvöld, bara alveg geggjaður í kvöld. Hann er góður að grípa og skjóta, ekki eins og Antti að hlaupa af helling af drasli og grípa og skjóta en hann getur vel hitt úr þristum og er góður skotmaður.

Svo var hann svolítið að vinna á póstinum og gerir það nokkuð vel…

Jájá, við þurfum kannski að gefa honum aðeins meira pláss þegar hann fer í það…

Akkúrat. Það er kannski ekki allt í blóma…en margt allaveganna…?

Það er aldrei mikið í blóma á nóvember á Íslandi! Það kemur ekki fyrr en á vorin…

Sagði Arnar og undirritaður verður að viðurkenna að blómamyndhverfingin var arfaslök! Allt í toppstandi í Garðabænum fagra skulum við segja að lokum.