Hólmarinn Alda Leif Jónsdóttir gæti misst af úrslitakeppninni með Snæfell í Domino´s deild kvenna en hún meiddist á æfingu á dögunum. Karfan.is ræddi eldsnöggt við Öldu um meiðslin.
,,Ég fór mína fyrstu æfingu í þrjár vikur og leist bara vel á mig. Um miðja æfingu snéri ég svo upp á hitt hnéð,” sagði Alda sem hafði verið að hvíla vegna meiðsla í hné. Það var því góða hnéð ef svo má að orði komast sem varð fyrir hnjaski á æfingunni.
,,Ég veit reyndar ekki hversu alvarlegt þetta er, við skoðun hélt læknirinn að þetta væru ekki krossböndin heldur tognun á liðböndum en það er ekki búið að taka neinar myndir. Eins og staðan er í dag býst ég ekki við að vera meira með í vetur og er rosalega svekkt! Auðvitað er hundfúlt að enda tímabilið svona þar sem skemmtilegasti tíminn er að byrja.”