Fram fór sannkallaður stórleikur í 2. deild karla í gær þegar lið Aþenu/Leiknis tók á móti KR-B í Unbroken-höllinni: um var að ræða leik þar sem eitt lið skipaði hvað reyndustu körfuboltamönnum Íslands og hitt liðið reyndustu 2. deildar leikmönnum í sögu körfuknattleiks á Íslandi.
Fyrir leikinn voru bæði lið með 4 sigra og í toppbaráttu við Vestri og Fylki (sem einnig áttust við sama dag).
Leiknir réði lögum og lofum í fyrstu mínútum leiksins og skoruðu 18 stig á móti aðeins 4 stigum KR. Ingvi var þar í fararbroddi Leiknismanna ásamt Guðjóni. Gestirnir sóttu þó fljótlega í sig veðrið og endaði fyrsti fjórðungur 32-18 Leikni í vil.
Annar leikhluti var mun jafnari og tókst KR-ingum að saxa á forskot heimamanna, þá aðallega með skotum utan af velli frá Þorsteini en einnig áttu Jens, Jamil, Jón og Sigurður körfur fyrir aftan þriggja stiga línuna.
Fór munurinn mest niður í 7 stig í lok fjórðungsins áður en Ingvi setti niður ævintýralega þriggja stiga flautukörfu fyrir Leikni til að slútta fyrri hálfleik. KR-ingar unnu því 2. leikhluta en staðan samt sem áður 53-43 fyrir Leikni.
Eftir eldræðu frá Lásinum, þjálfara Leiknismanna, mætti liðið tvíeflt til leiks í seinni hálfleik og skoruðu sókn eftir sókn ásamt því að spila sómasamlega vörn gegn reynslumiklu liði KR. Stigamunurinn skyndilega orðinn um 20 stig þegar tók að styttast í annan endann á þriðja leikhluta og var staðan svipuð þegar liðin settust á bekkinn að honum loknum.
Í fjórða leikhluta brugðu KR-ingar á það ráð að spila svæðisvörn sem skilaði sér að einhverju leyti. Þetta hægði á stigaskori heimamanna sem höfðu mest náð 30 stiga forystu. KR-ingar náðu þó aldrei að klóra almennilega í bakkann og lauk leiknum 97-79 fyrir Aþenu/Leikni.
Fyrir Leiknismenn skoraði Ingvi 30 stig, Guðjón 16, Þröstur 13, Siggi 9, Arnar og Elvar 6 hvor, Dzemal 5, Róbert 4, Tetz 3, Lásinn 3 og Hafþór 2.
Fyrir KR-inga var Þorsteinn atkvæðamestur í stigaskori með 25 stig. Þá skoraði Jamil 12 stig, Jón Arnór 11 stig, Skarphéðinn 7, Helgi 8 stig, Sigurður 7, Finnur 6 og Jens 3.
Greiningardeildin
Eftir þennan toppslag milli máttarstólpa 2. deildarinnar er ljóst að í þetta sinn var það reynslan úr 2. deildinni sem trompaði reynsluna af stóra sviðinu og heldur Lurkabolti Leiknis, eins og gárungar á knæpum bæjarins hafa ákveðið að kalla leikskipulag liðsins, áfram á blússandi siglingu. KR-ingarnir eru þó ekki þekktir fyrir annað en að bíta hressilega frá sér og má því búast við villtri viðureign í Vesturbænum þegar liðin mætast snemma á næsta ári.
Unbroken höllin er ennþá – svo leikið sé að orðum – Unbroken – þar sem ekkert lið hefur enn tekist að sækja sigur þangað gegn Lurkunum í Leikni.
Ingvi og Guðjón virðast vera hvað skæðasta sóknar par 2. Deildarinnar um þessar mundir og þá heldur Lásinn áfram að heilla tölfræðikörfuboltaáhugamenn með sínum Per30 tölum.
Eftir leikinn trónir Aþena/Leiknir á toppnum á nýjan leik með 5 sigra eftir að Vestri lögðu Fylki á Ísafirði, 87-79. Vestri vermir 2. sætið með 5 sigra (en þeir lutu í lægra haldi fyrr á tímabilinu gegn Leiknismönnum), Fylkir það þriðja með 4 sigra og KR B hið fjórða með 4 sigra.