,,Þetta er það sem við þurftum enda höfum við verið að spila fjarri okkar getu og það býr miklu meira í þessu liði en það hefur sýnt undanfarið,“ sagði Ágúst Björgvinsson þjálfari Vals eftir sigur á Fjölni í Iceland Express deild kvenna í kvöld. Valur batt þar með enda á sex leikja taphrinu og hópnum var létt.
,,Í rauninni vorum við ekki að gera marg öðruvísi en við höfum gert undanfarið. Í síðustu leikjum höfum við verið að byrja ágætlega en síðan höfum verið að fá á okkur slæm áhlaup og brotna við það. Í kvöld héldum við okkur á tánum og okkar litlu markmið þau gengu upp, t.d. hvernig við ætluðum að skora og hvernig við ætluðum að verjast gegn Fjölni, það var kannski munurinn samanborið við síðustu leiki,“ sagði Ágúst og verða því næstu skref léttbærari fyrir vikið víst sigurinn langþráði er kominn?
,,Við höfum ekki unnið leik frá því við mættum Fjölni síðast. Næsti leikur er gegn Keflavík og þar fer topplið á rosalegri siglingu. Við erum að fara að mæta þeim í Keflavík og það er mjög verðugt verkefni fyrir okkur. Þurfum að mæta tilbúnar í þann leik en ætlum núna að njóta þess að hafa unnið loksins leik.“