spot_img
HomeFréttirÁgúst: Hugsa um það sem við höfum bein áhrif á

Ágúst: Hugsa um það sem við höfum bein áhrif á

Ágúst Sigurður Björgvinsson verður á kunnuglegum slóðum í kvöld þegar Valskonurnar hans mæta Hamri í undanúrslitum í Poweradebikarkeppni kvenna. Leikurinn hefst kl. 19:15 í Hveragerði en þar þjálfaði Ágúst í samtals fjögur ár og tvö þeirra ára stýrði hann kvennaliði Hamars. Þar með er ekki öll sagan sögð því að í liði Vals gefur einnig að líta Jaleesa Butler, Kristrúnu Sigurjónsdóttur, Þórunni Bjarnadóttur og Guðbjörgu Sverrisdóttur en allar voru þær á mála hjá Hamri á einhverjum tímapunkti þegar Ágúst var þar þjálfari.
 
 
Búast flestir við því fyrirfram að Valur verði öruggur sigurvegari í leiknum. Ykkar helsta verkefni þá að hafa báða fætur á jörðinni?
Það er rétt að við erum talið vera sterkara liðið í þessari viðureign en eins og allir vita getur það verið mjög hættulegt að vera velta því of mikið fyrir sér.
 
Nú þekkir þú hvern krók og kima í Hveragerði, hvernig líst þér á Hamarsliðið í dag?
Ég var í Hveragerði í fjögur ár og tvö þeirra þjálfaði ég einnig kvennaliðið. Í dag er liðið í 1. deild og hefur leikið mjög vel og sigrað alla sína 9 leiki og á beinni leið upp í úrvalsdeild. Nú eru þær komnar í undanúrslit í bikarnum sem Hamar náði síðast 2010. Margar af lykilleikmönnum liðsins voru þá að æfa með meistaraflokki, Marín og Dagný Lísa voru að stíga sín fyrstu skref en þær spiluðu ekki mikið þá enda mjög ungar og Marín að stíga úr erfiðum meiðslum. Þessar tvær stelpur eru mikil efni og eiga bjarta framtíð fyrir sér og geta náð langt ef þær ætla sér. Íris Ásgeirsdóttir var fyrirlið hjá mér, hún er með mikla reynslu og leikmaður sem lætur taka vel til sín enda er hún í frábæru líkamlegu formi. Jenný Harðardóttir og Álfheiður Þorsteinsdóttir einnig mjög öflugir leikmenn en Jenný var í mikilvægu hlutverki hjá mér þegar ég þjálfaði Hamarsliðið og Álfheiður leikmaður sem ég hefði gjarnan vilja vera með í baráttunni undir körfunni. 
 
Ykkar upplegg fyrir leikinn, eitthvað af hernaðaráætluninni sem þú getur eða vilt deila með okkur?
Við þurfum að fyrst og fremst að einbeita okkur að okkar leik. Hugsa um það sem við höfum bein áhrif á og hafa minni áhyggjur af því sem við stjórnum ekki.
 
Varðandi Snæfell-Keflavík, hvað sérðu í þeirri rimmu? Hvort liðið fer þar í Höllina?
Það er mjög erfitt að segja til um þennan leik, bæð lið hafa verið að leika mjög vel í vetur. Keflavík hefur sigrað báða deildarleikina milli þessara liða með 4 stigum en Snæfell sigraði í úrslitaleik Lengjubikarsins með 6 stigum. Þessar 120 mínútur sem liðin hafa leikið munar aðeins 2 stigum á þeim. Úrslitin í þessum leik eiga mjög líklega eftir að ráðast á lokamínutum og algjörlega ómögulegt að spá fyrir um hvort liðið fari í Höllina.
  
Fréttir
- Auglýsing -