Ágúst Björgvins, þjálfari Vals, horfir jákvæður fram á veginn þrátt fyrir tap:
Þið fáið tvo nýja leikmenn rétt fyrir leikinn og kannski bjartsýni að ætla að ná sigri gegn KR – en þetta var þó mikið svona nálægt og næstum því í kvöld?
Við vorum alltaf að elta, vorum að elta allan leikinn og komumst aldrei yfir. Við eigum nokkra fína spretti en það er varnarleikurinn sem verður okkur algerlega að falli. Við spiluðum mjög slaka vörn, þegar þeir klikkuðu úr skotunum, sem gerðist nú ekki oft því þau voru yfirleitt opin, þá voru þeir að ná sóknarfráköstunum. Það eru atriði sem við megum ekki klikka á, við þurfum að hafa fráköstin að minnsta kosti jöfn og helst vinna þau eins og við höfum verið vanir að gera í undanförnum leikjum.
Mér fannst liggja beint við að prófa svæðisvörn þar sem vörnin var ekki upp á marga fiska og það hentar liðinu vel þar sem Lamont á erfitt með að verja póstinn og með Ragga Nat í miðjunni. Þið prófuðuð það ekki fyrr en í seinni hálfleik, voru þið ekki alveg tilbúnir í það?
Við vorum alveg undirbúnir fyrir það en við vorum bara svolítið hræddir við það því þeir voru búnir að hitta svo vel. Þeir voru að raða þristum en við prófuðum það og þeir settu strax á okkur þrist.
Jájá..þið náðuð líka að stela nokkrum boltum í svæðisvörninni…
Já, vissulega, það hefði kannski hjálpað okkur eitthvað meira að nota svæðisvörnina meira – en þeir voru svo sem að skora á okkur úr öllum mögulegum stöðum…
Einmitt, en þér hlýtur að lítast vel á Lamont, nýja leikmann ykkar?
Jájá, Kendall Lamont er hörku leikmaður og Will er það líka. Við erum með hörku lið – eða hörku leikmenn réttara sagt – við eigum svolítið eftir að verða lið og það mun taka sinn tíma. Við erum búnir að vera einhverja 5 daga saman og við fáum nú tæpa viku til að undirbúa okkur fyrir næsta leik og við þurfum að geta byggt ofan á það sem var fínt hérna í kvöld og laga það sem að þarf að laga.
Viðtal: Kári Viðarsson