Íslandsmeistarar Vals lögðu heimamenn í ÍR í Skógarselinu í 9. umferð Subway deildar karla í kvöld, 77-83. Eftir leikinn er Valur í 2. sæti deildarinnar með 14 stig á meðan að ÍR er í 10. sætinu með 6 stig.
Ágúst Björgvins stýrði Valsliðinu í fjarveru Finns og hafði þetta að segja eftir góðan sigur á ÍR:
Þetta eru tvö stig, erfiður útivöllur þó þetta sé nýtt hús þá eru sömu gettóarnir hérna…þið tapið 19 boltum í leiknum sem er ansi mikið en vinnið samt…það voru plúsar og mínusar í þessu hjá ykkur í kvöld?
Jájá, það var margt jákvætt og margt líka sem þarf að laga, augljóslega þessir töpuðu boltar! Vörnin á köflum var mjög góð en svo á köflum mjög léleg. Það er margt sem við getum lagað og margt sem var betra en í síðasta leik.
Þriggja stiga nýting ÍR var í 13% í hálfleik…það var kannski eini munurinn á liðunum, þið voruð kannski ekki mikið betri í fyrri hálfleik þó þið hafið verið 11 yfir?
Jah, planið fyrir leikinn var að koma boltanum úr höndunum á Taylor Johns, það gekk bara vel, þótt þeir hafi verið opnir voru sendingarnar oft erfiðar svo það gekk ágætlega. Við ræddum um það í hálfleik að það væri ólíklegt að þeir myndu hitta svona illa allan leikinn og það kom strax á daginn í þriðja leikhluta, settu einhverja 3 þrista á fyrstu minútunum.
Nákvæmlega. Ykkar leikur sóknarlega varð kannski líka betri í seinni hálfleik, Kári Jóns var t.d. heitur í fjórða…
Jájá, það hjálpar alltaf þegar maður setur skotin niður, þá lítur þetta betur út, en eins og ég segi þá er margt jákvætt en margt líka sem við þurfum að laga. Við förum bara í það núna, það er strax leikur á mánudag í bikarnum gegn Grindavík.
Akkúrat, Valsmenn hafa auðvitað metnað fyrir að fara alla leið þar?
Jájá og sagan segir að Grindvíkingar eru líka mikið bikarlið. Það er sæti í höllinni í húfi í 4-liða úrslitum, þannig að það er gríðarlega stór leikur og mikið undir fyrir bæði lið.
Já, það verður hörku barátta!
Já, ég býst ekki við öðru.