15:59
{mosimage}
Grindavíkurkonur eru í 3. sæti Iceland Express deildar kvenna í körfuknattleik með 14 stig. Keflavík er á toppnum með Haukum en bæði lið hafa 20 stig. Petrúnella Skúladóttir, leikmaður Grindavíkur, segir vörnina þurfa smella saman en Agnar Mar Gunnarsson, aðstoðarþjálfari Keflavíkurkvenna, segist ekki neinar áhyggjur hafa af leik kvöldsins.
,,Vörnin þarf að smella saman hjá okkur og þá kemur sóknin af sjálfu sér,” sagði Petrúnella í samtali við Víkurfréttir en hún hefur gert 6 stig að meðaltali í leik í vetur. Agnar Mar segir sínar stúlkur þurfa að gefa sig 100% í leikinn allan tímann. ,,Það hefur verið liðsheildin sem hefur skapað okkar sigra gegn Grindavík. Við erum með betra lið og því hef ég engar áhyggjur af leiknum í kvöld. Ég er ekki smeykur við þennan leik því við höfum verið á góðri siglingu undanfarið,” sagði Agnar.
Keflavík er óneitanlega sigurstranglegri aðilinn í kvöld en Petrúnella segir ósigur ekki vera inni í myndinni hjá Grindavík. ,,Okkur gekk vel í síðasta leik og ég finn fyrir stíganda í liðinu. Við verðum bara allar sem ein að leggja harðar af okkur og hafa gaman af þessu,” sagði Petrúnella að lokum.
Leikur Grindavíkur og Keflavíkur hefst kl. 19:15 eins og áður hefur verið greint frá hér á vf.is
Frétt af www.vf.is