Carmen Tyson Thomas var allskostar ekki sátt með fyrrum þjálfara sinn Agnar Mar Gunnarsson þegar Karfan.is hafði samband við hana eftir brottrekstur hennar í gærkvöldi frá þeim Njarðvíkingum. Samskiptaörðuleikar voru helsta ástæða brottrekstursins samkvæmt Njarðvíkingum og Agnar Mar Gunnarsson þjálfari liðsins tók undir og bætti við að Carmen ætti í mestu erfiðleikum með að fara eftir skipulagi þess sem lagt var upp með í leikjum.
"Agnar hafði aðeins eitt skipulag og það var þegar hann sagði stelpunum að láta mig fá boltann. Í mörgum leikjum geturu heyrt í mér öskra á mínar stelpur um að taka sín skot því ég veit að þær geta hitt úr þessum skotum. Ég dró vagninn og þjálfarinn var með í því. Þvert á móti finnst mér þjálfarinn ekki hafa tekið starfi sínu nægilega alvarlega á mörgum stundum og þess vegna töpuðum við ákveðnum leikjum í vetur." sagði Carmen og svarar Agnari fullum hálsi.
Carmen hefur verið þeim Njarðvíkingum dýrmæt í vetur og skorað yfir 35 stig á leik og tekið 16 fráköst. Agnar sagði hinsvegar að engin er ómissandi þegar hann telur sig stærri en klúbbinn. "Þú ættir að heyra í liðsfélögum mínum og þær myndu aldrei segja neitt neikvætt um mig. Ég fór í þetta verkefni af tveimur ástæðum. Til að koma klúbbnum aftur á kortið og hjálpa yngri leikmönnum liðsins að verða betri. Þess vegna tók ég að mér einnig þjálfun unglingaflokks. Þú getur spurt allar stelpurnar og þær munu segja þér að þær elska mig jafnmikið og ég elska þær. María, Björk , Karen , Heiða , Ása, Júlía, Hulda, Ína, Soffía, Linda, Svala og allar sem ég nefni ekki hafa barist fyrir mína hönd í þessu máli án þess að ég hafi beðið um það. Og þær eru ekki ánægðar með þessa niðurstöðu. Ég vil bara þakka stjórn Njarðvík fyrir tækifærið. Ég ætla ekki niður í þann drullupoll sem Agnar fór í sínu viðtali og tala illa um hann. Hann og ég vitum sannleikann í þessu máli og allir sem voru á þessum fundi." sagði Carmen og vildi bæta við að hún hefur enn sterkar tilfinningar til Njarðvíkurliðsins.
"Ég vil fá að segja við stelpurnar að ég elska þær allar og ég verð til staðar fyrir þær alltaf. Áfram Njarðvík." sagði Carmen að lokum.