spot_img
HomeFréttirAgnar: Góðar tölur frá Carmen en liðsheildin skilar þessu

Agnar: Góðar tölur frá Carmen en liðsheildin skilar þessu

Nýliðar Njarðvíkur skelltu sér á topp Domino´s-deildar kvenna í kvöld ásamt Snæfell, Stjörnunni og Keflavík með öflugum 70-86 útisigri gegn Grindavík í Mustad-höllinni. Carmen Tyson-Thomas átti enn einn stórleikinn í liði Njarðvíkinga en hún gerði 52 stig í leik kvöldsins!

Karfan.is ræddi við Agnar Mar Gunnarsson þjálfara Njarðvíkurkvenna eftir leik: „Lykilinn að sigri kvöldsins var hjartað, viljinn til að leggja sig fram fyrir klúbbinn en 90% af 20 manna æfingahóp ól manninn upp í Njarðvíkurskóla. Allar með það takmark að sýna körfuboltahreyfingunni að okkur var alvara með að taka þátt á meðal þeirra bestu. Fengum ekki góðar spár og tal fyrir mót og það var eitthvað sem við vildum afsanna. Stelpurnar hafa lagt mikið á sig í sumar og nú í byrjun vetrar og þær eru bara sjá árangur erfiðisins,“ sagði Agnar sigurreifur eftir leikinn í kvöld.

Aðspurður um magnaða frammistöðu Carmen Tyson-Thomas sagði Agnar: „Carmen átti frábæran leik og er algjör gullmoli fyrir okkur, hún er lykilleikmaður liðsins en okkar íslensku stelpur sem hafa ekki mikið fengið tal frá spekingum hafa staðið upp og gert sitt til að hjálpa liðinu. Við vitum að við fáum góðar tölur frá Carmen en það er liðsheildin sem er að skila þessu í hús með góðri hjálp frá Carmen.“

Agnar vildi þó ekki að sínir liðsmenn færu neitt fram úr sjálfum sér þó byrjun mótsins hafi verið með besta móti hjá Njarðvíkingum:
„Sterk byrjun á þessu móti var bara hvatningin að sýna að stelpurnar geta alveg spilað körfubolta, Stelpurnar þekkja hvor aðra inn og út hafa spilað saman upp alla yngr flokka og voru tilbúnar að hoppa ofaní djúpu laugina án kúta. En þetta er langt og strembið mót og aðeins 4 leikir búnir og 24 leikir eftir þannig það þarf að hafa fætur á jörðinni og einbeita sér strax að næsta leik.“

Fréttir
- Auglýsing -