18:10
{mosimage}
(Agnar og Jón Halldór við störf í þriðja leik Hauka og Keflavíkur)
Í kjölfar þriðja úrslitaleiks Hauka og Keflavíkur á þriðjudagskvöld í Iceland Express deild kvenna átti sér stað leiðindaatvik undir leikslok. Agnar Mar Gunnarsson, aðstoðarþjálfari Keflavíkurliðsins, gekk í veg fyrir Helenu Sverrisdóttur, leikmann Hauka og stjakaði við henni af tilefnislausu. Atvikið átti sér stað nokkrum sekúndum eftir að lokaflauta leiksins gall. Frá þessu er greint á www.vf.is
Agnar hefur að eigin frumkvæði haft samband við forsvarsmenn Körfuknattleiksdeildar Hauka og viðkomandi leikmann og beðist afsökunar á hegðun sinni. Á vefsíðu Hauka segir að með afsökunarbeiðninni sé málinu lokið frá hendi Hauka og viðkomandi leikmanns.
Agnar tjáði Víkurfréttum það í dag að hann hefði nú seinni partinn náð sambandi við Helenu og beðið hana velvirðingar á atvikinu. ,,Við vorum sammála um að þetta mál væri afgreitt líka okkar á milli og ég fæ að smella einum kossi á kinn hjá henni á laugardag,” sagði Agnar.
Úrslitakeppnin í kvennakörfunni í ár hefur verið hreint augnakonfekt en þetta atvik á þriðjudagskvöld setti miður góðan blett á þennan þriðja leik en allir hlutaðeigandi aðilar líta svo á að nú sé þetta mál frá og að bæði lið geti nú af fullum krafti einbeitt sér að fjórða leik liðanna sem fram fer á laugardag.
www.vf.is – Mynd: Hans Guðmundsson