10. flokkur Aftureldingar, strákar fæddir 2009, hélt til Lettalands í byrjun febrúar þar sem þeir léku í Evrópudeild yngri félagsliða, EYBL keppninni (European Youth Basketball League).
EYBL keppnin hefur verið haldin árlega síðustu 28 ár og er keppninni skipt upp í norður og suður deild og mismunandi aldurshópa U13, U15 , U16 , U17 og U20. Stjarnan sendi lið til keppni á síðasta ári í þessa deild en strákar fæddir 2008 fóru og einnig 2010 árgangur en það var svokallað Allstar lið sem Leifur Steinn Árnason stóð fyrir.
Í ár eru Valsmenn í U17 keppninni og Afturelding í U16 keppninni. Keppninni er skipt upp í tvær umferðir (helgar) og keppt er á mismunandi stöðum í Evrópu. Þess ber þó að geta að Afturelding ákvað að keppa bara eina helgi á meðan Valsmenn leika báðar umferðir og svokallað Challenge cup í lokin.
Að þessu sinni léku Aftureldingarstrákar í Valmiera sem er um 30 þúsund manna borg um 2 tíma akstur frá Riga og þar er ein af Ólympíu miðstöðvum Lettlands. Þeir héldu út miðvikudaginn 5. febrúar en keppni hófst á fimmtudeginum. Strákarnir léku í norðurriðlinum gegn fjórum liðum af átta sem eru í riðlinum, Siguldas Sporta skola og SK Ezerezeme BJSS en það eru Lettneskt lið. Síðan léku þeir gegn einu liði frá Ungverjalandi, Zsiros Academy og loks síðasta leik gegn Georgísku liði að nafni Ajara Batumi. Strákarnir léku í D-riðli í þessari annarri umferð deildarinnar.
Skemmst er frá því að segja að strákarnir léku vel í þessu móti og enduðu í 3ja sæti á innbyrðis stigamun með 7 stig líkt og liðin í 1. og 2. sæti, þar sem þeir sigruðu 3 leiki og töpuðu einum gegn liðinu sem endaði efst í þessari umferð, Ezerzeme en í lokaleik keppninnar sigraði Afturelding Ajara Batumi sem endaði í 2. sæti og Afturelding í því 3ja á innbyrðis stigamun eins og áður segir. Þetta var frábær reynsla og fjör fyrir þessa stráka að fá að taka þátt í svona alþjóðlegu móti, sjá og prófa sig gegn erfiðari andstæðingum sem eru stærri, sterkari og hraðari en gengur og gerist heima við. Í lok móts var síðan Dilanas Sketrys leikmaður Aftureldingar verðlaunaður í fimm manna úrvalsliði mótsins og drengirnir koma heim með bikar og medalíu fyrir 3ja sæti keppninnar en fyrst og fremst reynslunni ríkari.
Í stuttu spjalli Körfunnar við Sævald Bjarnason þjálfara liðsins hafði hann þetta að segja um mótið.
“Það er bara frábært tækifæri fyrir okkar ungu körfuboltadeild að fá að prófa okkur á svona sviði, þessi hópur er sá hópur í félaginu sem er að ryðja brautina fyrir næstu flokka, eru að gera þetta allt í fyrsta skiptið, fyrstu Íslandsmeistarar félagsins, fyrsta skiptið á Scania í fyrra og svo núna þetta verkefni á EYBL. Þetta er algjörlega geggjaður hópur að fá að þjálfa, um 20 strákar sem æfa rosalega vel, frábærir foreldrar á bakvið tjöldin sem hvetja og styðja við þessa stráka.”
“Að fá tækifæri til þess að gefa þessum strákum nýja sín á boltann, víkka sjóndeildarhringinn þeirra, fá reynslu á svona sviði er ómetanlegt fyrir deild eins og okkar sem erum að fóta sig heima og stefna að því að komast á hærri stall. Þetta er allt saman partur af stærri mynd sem við sjáum fyrir okkur, þar sem markmiðið er að reyna að koma Aftureldingu hærra og lengra með öflugu yngri flokka starfi og meistaraflokk sem við störtuðum einmitt á þessu tímabili. Þessir strákar munu svo koma inn í það starf í réttum og rökréttum skrefum og því er þetta afskaplega mikilvægt fyrir þá og okkur sem deild að bjóða upp á spennandi og krefjandi verkefni.”
“Við áttum svo bara hörkuflottar frammistöður á köflum í þessu móti og sem betur fer niðurkafla á móti sem við ætlum að nýta okkur til þess að verða ennþá betri. Þessir kappar eru nú bara í 10. bekk svo það er hörku svigrúm til bætinga og þeir munu nýta þessa reynslu til þess að eflast og verða betri.”
Og Sævaldur bætir við, „Vonandi er þetta bara áframhald af þeirri góðu uppbyggingu sem verið hefur í Mosfellsbænum en flottar framfarir hafa verið í flokkunum fyrir neðan. Yngstu hóparnir hjá okkur eru risastórir en það er nú frumforsenda þess að halda úti öflugu starfi að byggja upp yngri flokka.”
“Reynslan var frábær af þessu móti og við erum hvergi nærri hættir erum í mikilli baráttu í 10. bekknum hér heima um sæti í úrslitakeppninni.“
Um páskana munu svo lið Breiðabliks, KR ásamt Aftureldingu taka þátt í Scania Cup í 10. flokki (U16) sem fram fer í Södertelje í Svíþjóð. Það verður áhugavert að fylgjast með þessum íslensku liðum takast á við jafnaldra sína frá öðrum þjóðum.

Mynd 1: Afturelding í þriðja sæti /Janis Larmanis

Mynd 2: Dilanas Sketrys atkvæðamestur í liði Aftureldingar og valinn í lið mótsins /Janis Larmanis

Mynd 3: Bikarinn á loft /Janis Larmanis