Undir 16 ára stúlknalið Íslands tapaði í dag fyrir Svíþjóð með 9 stigum, 49 gegn 58. Leikurinn sá annar sem liðið leikur á Norðurlandamótinu í Kisakallio, en fyrsta leiknum töpuðu þær einnig í gær fyrir Noregi.
Gangur leiks
Líkt og í gær gegn Noregi byrjuðu þær íslensku leikinn miklu betur en andstæðingurinn. Voru komnar með 8 stiga forystu eftir fjögurra mínútna leik, 11-3. Svíþjóð náði þó áttum fljótlega og varð leikurinn jafn út fyrsta leikhlutann sem endaði 16-17, Svíþjóð í vil. Undir lok fyrr hálfleiksins ná þær íslensku að byggja upp smávegis forskot, en þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik er Ísland 7 stigum yfir, 33-26.
Í upphafi seinni hálfleiksins vinna þær sænsku niður mun Íslands, hægt og bítandi. Komast svo loks yfir þegar um tvær mínútur eru eftir af þriðja leikhlutanum, 38-40. Leikhlutinn endar svo á þeim tölum, tveggja stiga munur fyrir lokaleikhlutann.
Íslenska liðið byrjaði fjórða leikhlutann svo afleitlega. Voru komnar 6 stigum undir þegar um 5 mínútur voru eftir, þökk sé tveimur þristum frá Marín Lind Ágústdóttur komust þær þó aftur inn í leikinn. Allt kom þó fyrir ekki, þær sænsku bættu bara í og sigruðu að lokum með 9 stigum, 49 gegn 58.
Víkingaklappið
Þess er vert að geta að þegar 7:22 voru eftir af þriðja leikhlutanum braust út víkingaklapp frá þeim fjölmörgu aðdáendum sem íslenska liðið hafði með sér á leiknum. Þrátt fyrir að vera nær 100 en 1000 kom þetta bara nokkuð vel út hjá þeim. Aftur braust það svo út í fjórða leikhlutanum, en upptöku af því má sjá hér fyrir neðan. Þjóðernisríkar stundir í Kisakallio.
Hetjan
Elísabet Ýr Ægisdóttir var atkvæðamest í íslenska liðinu í dag, skilaði 7 stigum, 12 fráköstum, 2 stoðsendingum, 2 stolnum boltum og 3 vörðum skotum á tæpum 34 mínútum spiluðum.
Viðtöl: