Á hverju ári kemur upp þessi spurning afhverju deildarmeistarar karla fara upp en ekki deildarmeistarar kvenna. Stutta svarið er ekki mismunun heldur að það eru einfaldlega mismunandi aðstæður í körfubolta karla og körfubolta kvenna. T.d. eru 12 lið í efstu deild karla og 2 lið fara upp úr 1.deild en aðeins 8 lið í efstu deild kvenna og 1 lið fer upp um deild.
Hér áður fyrr var það þannig að deildarmeistari fór beint upp úr 1.deild kvenna. Sem þýddi að stundum var mótið nánast búið í janúar þar sem augljóst var hver yrði deildarmeistari. Á sama tíma fór ekkert lið beint upp úr 1. deild karla heldur fóru 4 efstu í úrslitakeppni. Sem þýddi að þau 2 lið sem komust í úrslitakeppnina voru að spila úrslitaleik sem skipti engu máli þar sem bæði lið fóru upp.
Niðurstaðan var því sú að það var sett upp úrslitakeppni í 1. deild kvenna sem að mínu mati hefur virkað frábærlega því það hefur orðið til þess að 1.deild kvk fær meiri umfjöllun og hápunktur körfuboltans er úrslitakeppni að vori. T.d. var aldrei fjallað um 1.d.kvk. í sjónvarpi fyrr en úrslitakeppnin kemst á. Það þýðir samt að deildarmeistartitilinn er tilgangslaus titill – það er samt þannig líka í úrvalsdeild karla og kvenna. Þú færð heimavallarrétt en verður ekki Íslandsmeistari. Er kannski mismunurinn sá að í 1.deild karla þýðir deildarmeistaratitll eitthvað ólíkt öðrum deildum?
Síðan varðandi úrslitakeppni í 1. deild karla þá var keppninni breytt þar þannig að eitt lið fór upp og svo berjast 4 lið um annað laust sæti. Það þýðir að meiri spenna er í úrslitakeppninni og meira undir og því skemmtilegri úrslitakeppni og meiri umfjöllun.
Það má vel ræða hvort þetta sé hin rétta leið eða ekki – en ég vona innilega að engum detti í hug að taka út úrslitakeppnina í 1.deild kvk því úrslitakeppni eru Jól körfuboltamanna og það var hræðilegt þegar 1. deild kvenna var eina deildin þar sem engin úrslitakeppni fór fram. Í raun má segja að aðstæður í 1.deild kk og kvk séu ekki eins og reynt hafi verið að finna fyrirkomulag sem hámarkar skemmtanagrildi og vinsældir körfuboltans – sem hlýtur að vera öllum í íþróttahreyfingunni til góðs.
Texti / Bryndís Gunnlaugsdóttir