Það var nokkur eftirvænting hjá sveitavargnum fyrir leik Hattar og KR, enda leiknum sjónvarpað og ekki hafði verið bein útsending frá íþróttahúsinu á Egilsstöðum síðan menntaskólinn atti kappi við einhverja aðra spurningakeppnisnörda í gettu betur u.þ.b. árið 1997 og tapaði naumlega. Það var þó ekkert naumt í dag og skita heimamanna algjör, þrátt fyrir að gestirnir væru án Pawel og Helga Magg og einungis mættir með níu leikmenn.
Í fyrsta leikhluta virtist kanski að heimamenn ætluðu að vera með í leiknum en voru þó að strögla og taka erfið skot sem rötuðu ekki rétta leið. KR á hinn bóginn voru léttleikandi og hraðir fengu auðveldar körfur og tóku mikið af sóknarfráköstum, fengu þannig hvað eftir annað tvo til þrjá sénsa í hverri sókn. Staða í lok leikhluta var 13 – 27 fyrir gestina.
Höttur hóf annan leikhluta á misheppnuðu tveggja stiga skoti og KR taka varnarfrákast og geisast í sókn, fá villu, innkast við endalínu, setja upp einfalt innkastkerfi sem skilar þeim galopnasta sniðskoti sem sést hefur í sveitinni í ára raðir. Þetta var frekar lýsandi fyrir það sem koma skildi. KR fór að pressa, yfirdekkuðu Tobin og létu aðra um að bera boltann upp völlinn. Þannig stálu þér boltum og ekkert virtist ætla að ganga hjá Hetti. Sóknarleikurinn var afleitur þar sem þeir áttu í mestu vandræðum með að senda boltann því KR-ingar fengu að yfirdekka sendingarlínur og boltalausir Hattarmenn breyttust í áhorfendur. Flæðið í sókninni varð þannig ekki neitt og flest sem reynt var kom vegna einstaklingsframtaks þar sem menn þvinguðu upp erfið skot. Staða í hálfleik 22 – 46 fyrir KR.
Það má síðan segja að Hattarmenn hafi gefist upp snemma í þriðja leikhluta þrátt fyrir að Tobin hafi byrjað hann á troðslu. Því var svarað hratt og snöggt með þristi frá Ægi og seinni helming leikhlutans hvíldi Finnur þjálfari KR allt byrjunarlið sitt nema Ægi og var ekki að sjá að það kæmi að sök. Staða í lok leikhluta 33 – 65 KR í vil.
Heimamenn komu niður einhverjum þristum í loka leikhlutanum og skoruðu heil 17 stig en það skipti engu því KR skoraði 20 og því endaði leikurinn 50 – 85 fyrir gestina.
Tobin var með 19 stig og 10 fráköst í liði Hattar og sá eini sem skoraði yfir 10 stig í liði heimamanna. Skotnýting var einungis 35% í tveggja og 25% í þriggja stiga skotum. Þrátt fyrir að þeir hafi verið arfaslakir ábáðum endum vallarins í dag þá er sóknarleikurinn áhyggjuefni þar sem vörnin hefur verið ágæt í öðrum leikjum vetrarins.
Hjá KR var Þórir með 18 stig, Darri 17 og Craion 15 stig og 18 fráköst og allir að skila frramlagi.
Texti: Frosti Sigurðarson
Mynd: Atli Berg Kárason