spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaÆvintýraleg 3ja stiga karfa frá EC tryggði Grindavík sigur í flottum leik

Ævintýraleg 3ja stiga karfa frá EC tryggði Grindavík sigur í flottum leik

Það blés ekki byrlega fyrir heimamönnum í Grindavík gegn sprækum ÍR-ingum.

Forskot ÍR var orðið 18 stig þegar um þrjár mínútur voru eftir af fyrri hálfleik og ekkert sem benti til annars en að ÍR myndi fara til búningsherbergja með virkilega gott forskot.

Þá tók þjálfari Grindvíkinga, Sverrir Þór Sverrisson, leikhlé. Hann hefur líklega farið með einhverja öfluga galdraþulu í leikhléinu því allt annað og miklu betra Grindavíkurlið kom til leiks eftir leikhléið; skoraði Grindavík 11 síðustu stig hálfleiksins og sýndu að þeir ætluðu ekki að gefa neitt eftir þrátt fyrir hræðilegan leik fram að þessu.

Í seinni hálfleik varð fljótlega jafnræði á með liðunum þótt oft hefðu ÍR-ingar smá forystu.

Lok leiksins voru síðan æsispennandi en Grindvíkingar héldu í lokasóknina í stöðunni 86-86 og þar var dagsskipunin einföld: Látið EC fá boltann og farið frá. Og kappinn þakkaði traustið og smellti þristi í andlitið á leikmönnum ÍR um leið og leiktíminn rann sitt skeið. Geggjuð sigurkarfa!

Frábær sigur Grindvíkinga staðreynd í leik sem var hreinlega góð skemmtun.

EC var rosalegur í þessum leik og hér er á ferðinni einn albesti útlendingurinn í deildinni. Ivan Alcolado var síðan verulega góður – og kannski er hér á ferðinni jafnbesti leikmaður deildarinnar; stig, fráköst, varin skot,flottar sendingar – nefndu það bara; rosalega góður leikmaður. Kristófer Breki var síðan ódrepandi og hjálpaði sínu liði mikið, og flestir aðrir leikmenn liðsins sýndu alveg hvað þeir geta.

Sorglegt tap ÍR staðreynd en þeir geta samt engum nema sjálfum sér kennt um. Misstu niður frábæra stöðu og gáfu Grindvíkingum sjéns á að klára leikinn; og Grindvíkingar taka slíkum sjénsum yfirleitt með opnum örmum – eins og nú.

Jordan Semple var sterkur í liði gestanna og Igor Maric ásamt Róberti Sigurðssyni léku vel sem og Collin Pryor. Aðrir létu töluvert minna að sér kveða.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Ingibergur Þór)

Róbert Sigurðsson leikstjórnandi ÍR-inga var eðlilega svekktur eftir leik og hafði þetta að segja:

“Við vorum góðir, bara mjög góðir, í fyrri hálfleik og höfðum alla möguleika á að fara til leikhlés með virkilega gott forskot. En Grindvíkingar eru hins vegar mjög gott lið og við vissum að þeir höfðu ekkert gefist upp. En ég er svekktur með að klára fyrri hálfleikinn svona illa, vorum með átján stiga forskot þegar lítið var til leikhlés. En okkur tókst ekki að halda þeim frá okkur á síðustu sirka þremur mínútunum og þeir komust aftur inn í leikinn.

Í síðari hálfleik var þetta í raun bara stál í stál og eflaust skemmtilegur og pottþétt spennandi leikur; en það var hrikalega sárt að fá 3ja stiga körfu, sigurkörfu, á síðustu andartökunum í andlitið – ótrúlega svekkjandi.

Við erum núna úr leik varðandi úrslitakeppnina og þurfum að kyngja því. Ætlunin er að klára tvo síðustu leikina með sóma og sigri,” sagði Róbert í spjalli við Körfuna eftir leik.

Kristófer Breki Gylfason var ánægður í leikslok, en kappinn spilaði frábærlega bæði í vörn og sókn, og er virkilega vaxandi leikmaður sem hver einasti leikmaður og þjálfari vill hafa í liði sínu; berst eins og ljón – gefur sig allan í verkefnið, og að þessu sinni var uppskeran góð.

Karfan ræddi við Kristófer Breka eftir leik og byrjaði á að hrósa honum fyrir góðan leik:

“Takk fyrir – þetta er án efa einn af mínum betri leikjum á þessari leiktíð. En ég er ánægður með sigurinn fyrst og síðast – það er það sem öllu skiptir.

Það var ekki að sjá að við myndum gera neinar rósir í þessum leik þegar maður spáir í að við mættum í rauninni ekki til leiks fyrr en eitthvað um 3 mínútur voru eftir af fyrri hálfleik og við átján stigum undir. Við tókum okkur saman í andlitinu og komumst inn í leikinn með baráttu og dugnaði og tókst að landa sigrinum með þessari rosalegu körfu frá EC á síðustu stundu.”

Hafa þjálfaraskiptin haft jákvæð áhrif á leik ykkar?

“Já, það finnst mér. Tempóið er orðið betra á æfingum og ég held að við séum búnir að þjappa okkur vel saman. Megum bara ekki mæta svona hauslausir í neinn leik eins og í fyrri hálfleik núna. Við erum með mjög gott lið sem er í framför og ekki spurning að við ætlum að bíta hressilega frá okkur í úrslitakeppninni – við erum með það góðan hóp og þjálfara að við eigum alveg að geta slegist þann stóra,” sagði Kristófer Breki að lokum.

Fréttir
- Auglýsing -