spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaÆsispennandi viðureign í Laugardalshöllinni

Æsispennandi viðureign í Laugardalshöllinni

Ármann sigraði Snæfell í æsispennandi leik í 1. deild karla í gærkvöldi. Leikurinn fór fram á heimavelli Ármanns, Laugardalshöllinni þar sem vel var mætt og góð stemmning. Snæfell mættu tilbúnir til leiks en Ármenningar ekki.

Snæfell hitti vel í byrjun en leikmenn Ármanns náðu ekki árangri í neinu nema að klúðra boltanum frá sér. Steinar Kaldal, þjálfari Ármanns neyddist til að taka leikhlé snemma og þegar það dugði ekki til brá hann á það ráð að skipta fyrr en hann er vanur. Snæfell höfðu algera yfirburði í upphafi og komust 18-3 yfir.

Kristó


Innkoma Kristófers Breka hleypti krafti í Ármenninga og þeir náðu að klóra sig aftur inn í leikinn í öðrum leikhluta. Frank Gerritsen kom inn með mikinn kraft í stutta stund og Ármann náði að minnka muninn jafnt og þétt. Kristófer Breki skoraði flotta körfu á lokasekúndum fyrri hálfleiks upp úr frábæru kerfi frá þjálfarateyminu. Hálfleikstölur 38-41 fyrir gestunum.

Jaxson


Seinni hálfleikurinn hélst jafn og spennandi en Snæfell náði þó að halda smá forskoti lengi vel. Það var ekki fyrr en í fjórða leikhluta sem heimamenn fóru loksins að hitta eins og þeir eiga að sér. Jaxson Baker sem hafði fram lítið hitt fyrri part leiks og verið í villuvandræðum snögghittnaði og skoraði 15 stig á nokkrum mínútum í fjórða leikhluta og kom Ármanni aftur yfir. Hann fékk svo sína fimmtu villu og varð að fara af velli þegar nokkrar mínútur voru eftir. 

Ármann var þá kominn með dálítið forskot og virtust ætla að klára leikinn en Alejandro Raposo skoraði þriggja stiga körfu og fékk víti að auki og stuttu seinna skoraði Matt Treacy annan þrist til að minnka muninn í 1 stig. Frosti Valgarðsson skoraði þá í næstu sókn úr gríðarlega erfiðu þriggja stiga skoti og kom Ármanni aftur í 4 stiga forystu. Snæfell náði ekki að svara og Ármann náði að landa mikilvægum sigri. Lokatölur 90-84  fyrir Ármanni sem halda þar með efsta sæti deildarinnar.

Hjá Ármanni var Jaxson Schuler Baker með 17 stig og 7 fráköst, Kristófer Breki var mjög góður, sérstaklega í fyrri hálfleik, skoraði 16 stig og var eini leikmaðurinn sem hitti vel framan af. Adama Darboe hitti ekki vel í kvöld en var með 13 fráköst og 8 stoðsendingar og Arnaldur Grímsson skoraði 15 stig og tók 9 fráköst.

Hjá Snæfelli:

  • Juan Luis Navarro skoraði 19 stig, tók 8 fráköst.
  • Alejandro Rubiera Raposo skoraði 21 stig, tók 6 fráköst og átti 7 stoðsendingar.
  • Khalyl Jevon Waters lagði sitt af mörkum með 20 stig og 14 fráköst.

Sigurinn var afar mikilvægur fyrir Ármann, sem er í harðri baráttu um efsta sæti deildarinnar. Með sigrinum halda þeir toppsætinu.

Snæfell er í næst neðsta sætinu en sýndu í þessum leik að þeir geta reynst öllum liðum erfiðir. 


Staðan í deildinni

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -