Í fyrstu umferð 1. deildar karla mættust sunnlensku liðin Hrunamenn og Selfoss á Flúðum. Það var fyrsti leikur Hrunamanna í 1. deild eftir nokkuð mörg ár í neðri deildum eða jafnvel án meistaraflokksliðs. Þá unnu Hrunamenn öruggan sigur á Selfyssingum. Síðan hefur ýmislegt breyst. Hrunamenn hafa misst Jasmin Perkovic sem var drjúgur fyrir þá í baráttunni undir körfunum en Selfyssingar hafa endurheimt leikstjóranda sinn og fyrirliða, Kristijan Vladovic, úr meiðslum sem hann glímdi við í byrjun tímabilsins.
Hjá Hrunamönnum eru tveir nýir lánsmenn frá úrvalsdeildarfélögum. Yngvi Freyr Óskarsson frá Haukum lék sinn 2. leik í kvöld og Veigar Páll Alexandersson frá Njarðvík lék í fyrsta sinn fyrir Uppsveitunga.
Jafnræði var með liðunum í upphafi leiksins. Þá var leikurinn var bæði hraður og skemmtilegur. Sveinn Búi sem byrjaði á bekknum lék vel fyrir lið Selfoss og Aljaz Vidmar, hávaxinn og hreyfanlegur strákur í liði Selfoss, var drjúgur. Þó sáu Kristijan og hinn stóri og sterki Terrence Motely að mestu um að skora fyrir liðið. Hjá Hrunamönnum var Karlo Lebo góður frá fyrstu mínútu. Selfyssingar lögðu mikið upp úr því að trufla Corey Taite og koma í veg fyrir að Hrunamenn kæmu boltanum í hendurnar á honum. Það mæddi mikið á Karlo Lebo að þurfa að fást við tröllið Terrence Motley og hina stóru strákana í Selfossliðinu. Síðustu sóknum Selfyssinga vörðust Hrunamenn með svæðisvörn. Þeir hafa oft gripið til hennar í vetur. Staðan var 22-25 eftir 1. fjórðung gestunum úr sveitinni í vil.
Hrunamenn hófu 2. fjórðung vel, héldu svæðisvörninni áfram og þótt Selfyssingar fyndu skotfæri hittu þeir illa lengi framan af. Leikmenn Selfoss skoruðu ekki stig fyrr en 3 mínútur og 10 sekúndur voru liðnar af leikhlutanum. Þá höfðu Hrunamenn skorað 19 stig gegn engu stigi Selfoss! Hrunamenn voru klárlega betra liðið í fyrri hálfleik. Munurinn fór mest í 12 stig.
Selfoss skipti yfir í svæðisvörn með slíkum ágætisárangri að þeir jöfnuðu leikinn 39-39. Það má segja að þeir hafi fellt gestina á þeirra eigin bragði. Í 2. leikhluta var leikurinn ekki eins hraður og líflegur og hann hafði verið upphafi en engu að síður hin ágætasta skemmtun. Staðan var 41-44 fyrir Hrunamenn í hálfleik.
Þriðji leikhluti var jafn og spennandi. Selfyssingar fengu gott framlag af bekknum frá Svavar Inga Stefánssyni, sem hitti skotunum sínum og varðist afar vel. Á meðan gat Terrence fengið dýrmæta hvíld sem kom Selfyssingum vel þegar leið á leikinn. Á meðan lék Karlo Lebo nánast hverja mínútu fyrir Hrunamenn og átti satt best að segja minna og minna að gefa liði sínu eftir því sem á leikinn leið. Hann hefði þurft meiri hvíld.
Selfyssingar sigu fram úr Hrunamönnum í 4. leikluta og voru lengst af betri á báðum endum vallarins. Á þessum kafla leiksins var helst að þær sóknir gengju vel hjá Hrunamönnum þegar Corey Taite var í öðru hlutverki en því að stjórna öllum sóknaraðgerðunum. Þá var eitthvað annað í gangi en Selfyssingar höfðu búið sig undir. Eyþór Orri Árnason getur vel stýrt leiknum þótt ungur sé og Corey er ógnandi og hreyfanlegur án boltans. Þegar Hrunamenn fóru þannig að var gott flæði í sóknarleik þeirra.
Leikurinn var spennandi í lokin. Leikar stóðu 78- 78 þegar hálf mínúta var til leiksloka. Terrence Selfyssingur fékk 5. villuna fyrir sóknarbrot. Áður höfðu Selfyssingar misst Aljaz af velli með 5 ákaflega klaufalegar villur. Hrunamenn gátu tryggt sér sigurinn með körfu í lokasókninni. Skot Corey geigaði hins vegar og í baráttu um frákastið braut hann af sér. Selfyssingar komust á vítalínuna þegar aðeins ein sekúnda var eftir af leiknum. Fyrirliði þeirra, Kristijan Vladovic, hitti hvorugu skotinu og tíminn rann út. Framlengja þurfti leikinn.
Í framlengingunni var jafnt á öllum tölum þar til í lokin þegar Selfyssingar náðu yfirhöndinni. Þeir höfðu misst mikilvæga leikmenn af velli en lykilmenn Hrunamanna voru gjörsamlega sprungnir á því og höfðu einfaldlega ekki orku til þess að sækja sigur í leiknum. Selfoss vann í jöfnum og spennandi en þó drengilega leiknum kappleik með 89 stigum gegn 85.
Kristijan Vladovic lék vel fyrir Selfoss og Terrence er hrikalega öflugur fyrir sakir styrksins sem hann býr yfir. Sveinn Búi átti góðan leik og Svavar lagði mikilvæg lóð á vogaskálarnar. Corey Taite var atkvæðamestur liðsmanna Hrunamanna og Karlo Lebo átti skínandi leik lengst af. Yngvi Freyr var liðinu mikilvægur, einkum í frákastabaráttunni, og Veigar Páll kom sterkur til þessa 1. leiks fyrir Hrunamenn og skoraði 19 stig. Orri Ellertsson sýndi glæsilega sóknartakta við og við með stoðsendingum í hæsta gæðaflokki en stöðugleikann vantaði í hans leik. Sigur Selfoss var sigur liðsheildarinnar. Liðið fékk framlag sem skipti máli frá mörgum leikmönnum. Hrunamennirnir notuðu færri leikmenn og sumir þeirra léku aðeins fáar mínútur. Breiddin í liði Selfoss reið baggamuninn í þessum leik.
Umfjöllun, myndir & viðtöl / Karl Hallgrímsson