spot_img
HomeFréttirÆgir mun stýra Fjölnismönnum í úrvalsdeild

Ægir mun stýra Fjölnismönnum í úrvalsdeild

11:02
{mosimage}

(Ægir Þór Steinarsson)

Einn efnilegasti leikstjórnandi landsins, Ægir Þór Steinarsson, verður áfram gulklæddur þegar Fjölnismenn hefja leik í Iceland Express deild karla á næstu leiktíð. Ægir var ,eins og margir ungir leikmenn, að velta fyrir sér námi í Bandaríkjunum en hefur nú sett þær pælingar á hilluna um stundarsakir. Ægir er annálaður jaxl á velli og mun vafalítið gera mörgum bakverðinum lífið leitt í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð. Karfan.is náði tali af Ægi sem nýverið var í lykilhlutverki þegar U 18 ára landslið Íslands varð Norðurlandameistari eftir frækinn sigur á Finnum.

,,Ég var að skoða þetta með nám í Bandaríkjunum en hef ákveðið að bíða með það enda spennandi tímar framundan hjá Fjölni svo ég ætla mér að vera í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð,“ sagði Ægir sem gerði 12,9 stig, gaf 6,7 stoðsendingar og tók 5,2 fráköst að meðaltali í leik með Fjölni í 1. deildinni á síðustu leiktíð.

,,Annars er Evrópumótið með U 18 ára framundan í sumar og þá er aldrei að vita hvaða gluggar opnast en Fjölnir er með ungt og spennandi lið og uppbyggingin er í fullum gangi,“ sagði Ægir sem vísast verður aðalleikstjórnandi hjá Bárði Eyþórssyni. ,,Það er allt útlit fyrir að við verðum með svipaðan kjarna hjá Fjölni og var í 1. deild og það er aðalatriðið. Engu að síður vantar klárlega stærð í okkar hóp en samkeppnin milli bakvarða er mikil. Sindri Már Kárason og Jón Sverrisson hafa verið að koma sterkir inn en við þurfum fjarka og kannski stóran kana því við megum ekki liggja flatir í frákastabaráttunni í vetur,“ sagði Ægir og kvaðst spenntur fyrir því að leiða Fjölni í úrvalsdeild.

,,Það verður spennandi að koma upp með boltann í úrvalsdeild og ég er spenntur fyrir verkefnum vetrarins. Að vera í 1. deildinni var góð reynsla og mér fannst smá úrvalsdeildarbragur á henni en ég er tilbúinn til þess að læra meira og bæta mig enda verða margir góðir bakverðir í deildinni sem maður fær að kljást við,“ sagði Ægir en aðspurður um atvinnumennsku og nám í Bandaríkjunum sagði hann: ,,Ég sé það einhvern veginn sem meiri vettvang fyrir mig að sækja nám til Bandaríkjanna og það er stefnan í dag,“ sagði Ægir en það er ekki aðeins úrvalsdeildin sem bíður þessa grimma og úrræðagóða leikstjórnanda heldur er Evrópumót í sumar.

,,Mér líst vel á möguleikana okkar á EM, sérstaklega eftir Norðurlandamótið. Eftir fyrstu tvo leikina í Svíþjóð komumst við í gang, vörnin small saman og við vorum nánast óstöðvandi. Mórallinn er góður í hópnum og það verður gaman að takast á við þessi stærri lið. Flestir í okkar aldri eru að fara í fyrsta sinn á EM en það eru bara þrír leikmenn í U 18 ára landsliðinu sem hafa farið áður,“ sagði Ægir en Ísland keppir í B-deildinni á Evrópumótinu í sumar en Ægir sagði liðið vera vel samkeppnishæft á mótinu.

,,Við eigum Pólland í fyrsta leik og svo eru Svíþjóð, Finnland og Slóvakía með okkur í riðli. Þetta verða hörkuleikir gegn Póllandi og Slóvakíu og svo eigum við harma að hefna gegn Svíum,“ sagði Ægir brattur fyrir Evrópuverkefni Íslands í sumar.

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -