spot_img
HomeFréttirÆgir kveður Klakann um helgina

Ægir kveður Klakann um helgina

Þann 4. desember n.k. heldur Ægir Þór Steinarsson út til Bandaríkjanna hvar hann mun hitta á nýjan leik liðsfélaga sinn úr Grafarvogi Tómas Heiðar Tómasson í Newberry háskólanum. Fyrir leiktíðina vissu Fjölnismenn að Ægis myndi ekki njóta við alla leiktíðina og nú skilja leiðir. Ægir hefur reyndar ekkert verið með Fjölni undanfarið en hann meiddist á ökkla og hefur einnig haldið sig til hlés, ástæðan – liðið þurfti að finna sinn stíl án hans. Karfan.is náði tali af Ægi sem er í óðaönn við að undirbúa flutninginn til Bandaríkjanna.
,,Ég klára bráðum að pakka niður, harðfiskur og körfuboltaskórnir er það eina sem þarf,“ sagði Ægir léttur á manninn en hann segir nú skilið við íslenska boltann næstu fjögur árin hið minnsta.
 
,,Já þetta verða a.m.k. næstu fjögur árin ef allt gengur eftir. Ég er búinn að fara í heimsókn í skólann og tala mikið við Tomma og mér líst mjög vel á þetta. Staðurinn er góður og það sem kom mér á óvart voru gaurarnir í liðinu, mikil og góð samkeppni í hópnum,“ sagði Ægir en verður ekki erfitt að skilja við Grafarvogsliðið?
 
,,Jú það er alveg klárt mál, ég er ekki alveg búinn að meðtaka það að ég sé að fara enda búið að vera mikil bandarísk pappírsvinna í þessu og allskonar stressköst sem maður er að taka núna. Ég geri þó ráð fyrir því að allskonar tilfinningar fari að brjótast upp á yfirborði á næstunni,“ sagði Ægir sem kvaðst ánægður með að Fjölnisliðinu hefði tekist að finna sinn leikstíl án hans.
 
,,Mér finnst lítið að marka leikinn gegn Þór Þorlákshöfn í Lengjubikarnum þar sem liðið var án Árna Ragnars en sigurinn gegn KR tók frá mér mikið stress. Þar fannst mér liðið finna sinn leikstíl. Það er erfitt að byrja svona tímabil og fara síðan og svo komu upp meiðslin hjá mér sem gaf liðinu smá grið til að sjá hvernig þeir væru án mín, grið til að finna sinn stíl án mín.“
 
Eins og fyrr segir heldur Ægir út þann 4. desember en þann 3. desember leikur Newberry sinn fyrsta leik í riðlakeppninni í NCAA II deildinni gegn Lenior-Rhyne. Blóðtakan í Grafarvogi er óumdeild enda Ægir á meðal bestu leikstjórnenda landsins og mikill máttarstólpi innan Fjölnis.
 
Mynd/ Úr safni: Tomasz Kolodziejski – [email protected]
 
 
  
Fréttir
- Auglýsing -