Grindavík og Stjarnan áttust við í 6. umferð Dominosdeildar karla í kvöld. Stjörnumenn með 3/2 hingað til og Grindvíkingar komnir í 2/3 eftir að hafa tapað fyrstu þremur leikjum sínum. Bæði liðin án lykilmanna, víkingurinn Hlynur Bærings ennþá frá hjá Stjörnunni eftir að hafa brákað rifbein á móti ÍR í 2. umferð og hinn baráttuglaði Björgvin Hafþór Ríkharðs veikur hjá gulum.
Stjörnumenn voru á undan upp úr blokkunum en Grindavík fann fljótt fjölina sína og Arnar setti and-1 þrist og setti vítið og staðan þá 16-17 og 3 mínútur eftir af 1. fjórðungi. Ingvi kom þeim svo yfir með þristi og momentið aðeins með gulum þar til Ægir svaraði í sömu mynt, 19-20 og 1:30 eftir af fyrsta fjórðungi. Ingvi jafnaði svo með sínum öðrum þristi, staðan 22-22 eftir opnunina.
Jamal Olasawere sem hafði byrjað sterkt, kom ennþá betri til leiks í 2. leikhluta og Stjörnumenn réðu ekkert við hann, bæði setti hann þrista og skoraði inn í og var kominn í 16 stig eins og hendi væri veifað, svei mér þá ef Teitur Örlygs hefur ekki bara rétt fyrir sér með að þetta sé einn besti Kaninn í deildinni… Á þessum tíma virtist Grindavík ætla taka yfirhöndina, staðan 33-28 en auðvitað er þessi íþrótt aldrei öll þar sem hún er séð og Daníel Guðni tók leikhlé þegar Stjörnumenn komust yfir, 35-37. Lokaspretturinn var samt heimamanna sem leiddu með fimm í hálfleik, 45-40. Jamal endaði með þau 16 stig sem hann var kominn með um miðjan hálfleikinn og hinum megin var Ægir illviðráðanlegur í sínum gegnumbrotum og var kominn með 14 stig.
Títtnefndur Jamal hélt uppteknum hætti í byrjun seinni hálfleiks og þegar “næstum því” nafni hans, JamaR Akoh fékk sína 4. villu og þ.a.l. hvíld þá virtist ætla stefna í veislu hjá JamaL. Grindavík fór strax inn á hann og Ágúst Angantýsson sem tók vaktina, byrjaði strax á að fá ásetningsvillu…. Jamal var fljótlega kominn upp í 23 stig og Valdas sömuleiðis sterkur inn í. Stjörnumenn eru hins vegar ekkert fæddir í gær og leiddir af áðurnefndum Ægi Þór voru þeir fljótlega komnir í 6 stiga forskot, 56-62. Hörku leikur í gangi! Stjörnumenn leiddu eftir þrjá, 63-64 og ljóst að þessi leikur myndi fara niður að vírnum….. (ömurleg þýðing……).
Stjörnumenn spýttu heldur betur í byrjun fjórða fjórðungs og Danni tók leikhlé þegar Kyle Johnson kom þeim í 9 stiga forskot, 69-78. Leikhléið skilaði sínu, 5 gul stig fylgdu í kjölfarið! Stjörnumenn tóku þá einfaldlega stjórnina og áður en varði var munurinn kominn upp í 13 stig, 76-89! Grindvíkingar einfaldlega hittu ekki skotunum sínum og öruggur sigur því staðreynd, þvert á spár ritara eftir fyrstu þrjá fjórðungana.
Það er ekki á neinn Stjörnumann hallað ef Ægir Þór er nefndur sem þeirra besti maður í leiknum, 29 stig, 6 stoðsendingar og 5 fráköst (32 í framlag). Magnað hreint hvað hann fékk að setja mörg sniðskot en Grindvíkingum tókst bara ekki að stöðva það hjá honum. Byrjunarliðið allt flott og yfir höfuð, góður leikur Stjörnumanna.
Hjá Grindavík stóð framvarðasveitin útlenska algerlega upp úr. Jamal með 33 stig og 10 fráköst (31 í framlag) og Valdas með tvennu líka, 18 stig og 10 fráköst (22 í framlag). Enginn annar úr byrjunarliðinu komst í tveggja stafa framlag en Ingvi náði því.
Stjarnan á góðu róli með með 4/2 en vonbrigðaúrslit fyrir gula sem eru þá með 2/4.
Viðtöl eftir leik: