Nú þegar aðeins eru nokkrar vikur í að leikar fari af stað í Dominos deild karla eru liðin í óða önn að undirbúa sig fyrir átök komandi veturs. Eitt af því sem þau eru að gera er að spila æfingaleiki, en í kvöld lagði nýliðarnir í Hetti rauða Reykjavíkurliðið, Val.
Höttur tók forystuna upp úr miðjum fyrsta leikhluta og Valsmenn náðu aldrei að brúa bilið. Leikurinn fór að lokum 72-87, Hetti í vil.
Hvorki Jón Arnór Stefánsson, Pavel Ermolinskij né Kristófer Acox spiluðu í kvöld fyrir Val, en Kristófer hitaðu í það minnsta upp þó að hann hafi ekki tekið þátt í leiknum.
Sigurinn virðist hafa unnist í teignum, enda skoruðu Hattarmenn meira en tvöfalt fleiri stig inni í teig en Valsmenn (48 stig gegn 20 hjá Val). Bæði lið áttu afleitt kvöld fyrir utan þriggja stiga línuna, 23,5% nýting hjá báðum liðum í þristum. Valsmenn tóku aftur á móti tvöfalt fleiri þrista en Höttur (34 þriggja stiga skot gegn aðeins 17 slík skot hjá Hetti).
Atkvæðamestur fyrir Hött í kvöld var Shavar Newkirk með 22 stig, fimm fráköst og þrjár stoðsendingar. Aðrir góðir fyrir gestina voru Sigurður Gunnar Þorsteinsson, Eysteinn Bjarni Ævarsson og Juan Luis Navarro, allir með 19 framlagspunkta.
Hjá Valsmönnum var Sinisa Bilic bestur í kvöld, en hann skoraði 25 stig, tók níu fráköst og dróg níu villur í leiknum. Hann endaði á að vera framlagshæstur allra í leiknum með 27 í framlag.
Þó að bæði lið eigi langt í land og Valsmenn hafi vantað nokkra leikmenn þá gæti vel verið að Höttur sé í betri séns en margir spekúlantar héldu í fyrstu. Það kemur í ljós í fyrstu umferðum Dominos deildar karla, sem hefst fljótlega.