spot_img
HomeFréttirAðsent: Kappleikir, áhorfendur og sjálfseyðingarhvöt

Aðsent: Kappleikir, áhorfendur og sjálfseyðingarhvöt

Ég er 85% viss um að aðdáendur íþrótta séu haldnir sjálfseyðingarhvöt. Hvenær er skemmtilegast að horfa á leiki?
 
Jafnir leikir eru skemmtilegastir. Þannig virkar lífið. Við fáum einhverja innspýtingu af adrenalíni ef það eru 5 mínútur eftir af leik og hann er jafn. Þetta á sérstaklega við ef liðið sem við höldum með er að spila. Liðið okkar. Eða að við erum búin að setja húsið undir á lengjunni, hvort sem er. Við höfum einhverju að tapa, annaðhvort sálarlífinu eða húsinu á lengjunni.
 
Undirliggjandi punkturinn er að við vitum ekki hvað er að fara að gerast. Möguleikarnir, eins og í lífinu, eru algjörlega takmarkalausir. Chuck Klosterman hefur skrifað um nákvæmlega þetta í grein sinni “Space, time and DVR mechanics” (http://www.grantland.com/story/_/id/6626431/space-time-dvr-mechanics). Ástæðan fyrir því að við viljum ekki horfa á kappleiki eftir að þeir eru háðir er af því við vitum hvað gerist. Ekki bara hver vinnur, heldur hvað gerist. Michael Jordan skoraði 38 stig og var með flensu. Stephen Jackson fór upp í stúku lamdi áhorfanda. Maggi Gunn fékk sér snakk á bekknum. Þess vegna fáum við þessa innspýtingu af adrenalíni. 5 mínútur eru eftir og lífið er að fara að gerast.
 
Hvað þýða kappleikir fyrir okkur sem menningu?
 
Þetta, held ég, að sé það sem kappleikir þýða fyrir okkur í dag. Þetta er stjórnuð leið til þess að upplifa ótta. Ekki eins og hryllingsmynd, því einhver hefur búið hana til. Hún er ekki að gerast, hún er tekin upp og sýnd. Ekki eins og bílslys því bílslys er í alvörunni hryllilegt. Það er ekki í alvörunni hryllilegt að Valur hafi tapað fyrir Fjölni á flautukörfu. Okkur finnst það bara hryllilegt, við getum samt farið heim og sofið (eða ekki sofið, fer eftir því hversu alvarlega hver tekur leiknum) í rúminu okkar. Kappleikjum er stjórnað á ákveðinn máta. Það er völlur, dómarar, léleg rapptónlist (sem stýrir að vísu engu en mig langaði að minnast á hana) og þjálfarar. En dómararnir og þjálfararnir eru líka hlutar af leiknum. Dómararnir gætu klúðrað einhverju, þjálfararnir gæru klúðrað einhverju. Dómari gæti farið í slag við þjálfara. Hvað sem er gæti gerst.
 
Eftir hverju vonumst við þegar við horfum á kappleik?
 
Vonum við ekki alltaf að við fáum jafnan og skemmtilegan leik? Ég fer vanalega á leiki Vals, hvort sem það er í fótbolta eða körfubolta. Alltaf þegar ég fer á leik vonast ég til þess að Valur vinni. Þegar Valur tók á móti Grindavík um daginn var sigur svo sem ekki líklegur. En ég vonaðist samt eftir sigri. Valsmönnum gekk vel til að byrja með, og í leiknum til heildar, og ég var ánægður. Stuðningsmenn Grindavíkur voru aftur á móti ekki ánægðir. Þeir komu til leiks með þær væntingar að Grindavík myndi ekki bara vinna, heldur rústa leiknum. Þar af leiðandi varð leikurinn mjög pirrandi upplifun. Valur endaði á því að tapa leiknum, þeir höfðu samt spilað og barist vel svo ég var svo sem ekkert fúll. Ég hafði í rauninni vonað að Valur myndi vinna en viljað fá jafnan leik, sem ég fékk. Stuðningsmenn Grindavíkur vildu ekki fá jafnan leik. Þau vildu fá að hlæja og skemmta sér í stúkunni og ekki hafa neinar áhyggjur. Þau fengu áhyggjur. Mannskepnan er undarleg að þessu leyti. Við sækjum í tilfinningar sem okkur finnst ekkert gaman að. Í tilvikum kappleikja þá er vonin sú að við finnum ekki fyrir ákveðnum tilfinningum en þær eru samt alltaf í spilunum.
 
Fólk sem hefur sjálfseyðingarhvöt er yfirleitt skipt í 3 flokka (samkvæmt grein Beumeister og Cher “Self-Defeating Behavior Patterns among Normal Individuals: Review and Analysis of Common Self-Destructive Tendencies”). Einn af þessum flokkum kallast “útskipting” (e. tradeoff, mín þýðing). Þetta á til dæmis við um reykingar. Þá skiptir fólk heilsu sinni (það vita allir að reykingar eru óhollar og geta leitt til dauða) út fyrir þá þá tilfinningu sem það fær við að reykja (sem er góð). Þegar við horfum á kappleiki finnst mér við skipta tilfinngum út fyrir aðrar tilfinningar. Ef við gerum ráð fyrir því að okkur líði venjulega áður en við förum á leikinn þá erum við að skipta henni út fyrir möguleikann á því að líða betur en það er mjög mikill möguleiki á því að okkur líði verr. Þar af leiðandi mætti færa rök fyrir því að aðdáendur kappleikja og liða séu haldnir sjálfseyðingarhvöt.
 
Magnús Björgvin Guðmundsson 
Fréttir
- Auglýsing -