spot_img
HomeFréttirAðsent efni: Eru útlendingar vandamál?

Aðsent efni: Eru útlendingar vandamál?

6:46

{mosimage}

Pance Ilievski (4) og Þórir Guðmundsson (8) fagna sigri KFÍ 

 

Ég hef orðið var við vaxandi gagnrýni undanfarið á aukinn fjölda útlendinga í íslenskum körfubolta. Oftar en ekki eru það úrvalsdeildarlið Þórs Þorlákshafnar og 1.deildarlið KFÍ sem eru skotmörkin í þessu sambandi. En er málið svona einfalt, eru þessi lið að grafa íslensku leikmennina sína á bekkinn til að rýma fyrir útlendingum og eru hin liðin eitthvað skárri?

Spurt er: Við eigum fullt af íslenskum strákum sem fá ekki séns. Af hverju þarf KFÍ að vera með atvinnubótavinnu fyrir útlendinga í stað þess að nota íslensku strákana?

 

KFÍ var með fullt af ungum íslenskum strákum í fyrra, eða tíu undir tvítugt.

Samkvæmt talningu minni þá fóru tveir suður að spila með úrvalsdeildarliðum samhliða námi, einn þurfti að gefa körfuboltaferilinn á bátinn sökum meiðsla, einn þurfti að hætta að æfa sökum náms og vinnu og þrír ákváðu að snúa sér að öðru en körfu. Eftir standa þrír leikmenn sem allir hafa fengið næg tækifæri í vetur. KFÍ hafði einnig 5 íslenska leikmenn sem voru eldri en tuttugu ára.

Tveir af þeim æfa á fullu í ár, tveir voru eitthvað með í ár en duttu út sökum vinnu og einn flutti til Grindavíkur. Erlendu leikmennirnir voru tveir. Annar þeirra, Sekó, á heima á Ísafirði, vinnur á Ísafirði og fær engar tekjur af körfubolta. Hinn var atvinnumaður frá Bandaríkjunum. Semsagt, í heildina 17 manns og 6 af þeim enn að æfa á fullu með KFÍ.

 

Í ár er KFÍ með 6 leikmenn fædda erlendis.

Florencio "Kókó" Calderon – Fiji. Hefur búið hér í þó nokkur ár og fær ekki borgað fyrir körfuknattleik (eins og 0,3 stig hans per leik gefa til kynna).

Zvezdan "Sekó" Dragojlovic – Serbía. Hefur búið og starfað á Ísafirði í nokkur ár. Fær ekki borgað fyrir körfuknattleik og búseta hans hér á landi er ekki háð körfunni.

Robert "Rob" Williams – USA. Atvinnumaður í körfubolta. Hefur allar sínar tekjur þaðan og stekkur heim með fyrstu vél um leið og flautan gellur í síðasta leik tímabilsins.

Riste "Tyson" Stojanov – Makedónía. Fundinn í einhverjum útnára Makedóníu af þjálfara KFÍ. Hefur engar tekjur af körfubolta.

Pance "Butterfly" Ilievski – Makedónía. Bróðir þjálfarans. Fær eitthvað borgað fyrir körfubolta en þarf þó að vinna samhliða honum til að láta enda ná saman.

Bojan "Bóbó" Popovic – Serbía. Fær eitthvað borgað fyrir körfubolta en þarf þó að vinna samhliða honum til að láta enda ná saman.

 

Nú veit ég ekki hvort launakosnaðurinn hjá KFÍ er hærri en hjá öðrum 1.deildarliðum því ég veit ekki hvort og þá hvað hin liðin borga topp íslensku leikmönnunum sínum. Gæti samt vel trúað að amk einhver af liðunum borgi topp þremur leikmönnum sínum, líkt og KFÍ gerir í ár. KFÍ reyndi að krækja í nokkra íslenska leikmenn fyrir tímabilið en það gekk ekki eftir. Því notaði Borce Ilievski, þjálfari KFÍ, sambönd sín og fékk Riste, Pance og Bojan til liðsins, allt leikmenn sem hafa lýst yfir áhuga sínum á að ílengjast hjá félaginu. Og hvers vegna gerði liðið þetta? Jú, því það hefur metnað til að vera með á Íslandsmótinu. Og ef það þýðir að það þurfi að leita út fyrir landsteinana til að manna liðið þá verður bara að hafa það. Fyrir mig og marga aðra skiptir það engu hvort hvort leikmaðurinn heiti Jón, Bojan eða Kim Yong Il svo framarlega að hann geti spilað. Og ef menn ætla virkilega að fara að gagnrýna lið fyrir að láta útlendinga taka mínútur af Íslendingum, væri þá ekki nær að líta á þau lið sem eru með nóg af Íslendingum innanborðs?

 

Spurt er: Félög eins og KFÍ, sem þurfa að flytja inn mannskap, og Þór Þorlákshöfn sem þurfa fjóra kana, eiga ekki að taka pláss frá þeim liðum sem leggja metnað í að byggja upp fyrir Íslendinga.

 

Það vill kannski einhver útskýra fyrir mér nákvæmlega frá hverjum KFÍ er að taka frá pláss? Það eru átta lið í 1.deildinni en mega vera tíu. Eitt af þessum liðum er einungis skipað Íslendingum og er svo fjári metnaðarfullt að það nennti ekki til Akureyrar um daginn að keppa. Og varðandi Þór Þorlákshöfn, þá er liðið með tvo erlenda atvinnumenn (David Aliu og Damon Bailey), einn Bandaríkjamann sem hefur búið hér á landi hátt í áratug og er með íslenskan ríkisborgararétt (Jason Harden) og spilandi þjálfara sem hefur verið hér í nokkur ár (Robert Hodgson). Hvers vegna er verið að taka Þór eitthvað sérstaklega fyrir í þessum samhengi? Vissulega eru þeir á botninum en staðreyndin er að ekkert lið í 1.deildinni á nokkurn séns í að halda sér meira en eitt ár í úrvalsdeildinni með núverandi mannskap, fyrir utan Þór Akureyri.

 

Til gamans þá tók ég saman síðustu umferð í úrvalsdeildinni.

Grindavík (Calvin Clemmons, Jonathan Griffin, Adam Darboe) 109 Tindastóll (Lamar Karim, Vladimir Vujcic, Milojica Zekovic) 99

 

Snæfell (Justin Shouse, Martin Thuesen) 83 Hamar (George Byrd, Bojan Bojovic) 60

 

KR (Edmund Azemi, Jeremiah Sola, Tyson Patterson) 89 ÍR (Nate Brown, Keith Vassell-ÍSL) 81

 

Fjölnir (Nemanja Sovic, Kareem Johnson) 98 Þór (Jason Harden-ÍSL, David Aliu, Damond Bailey, Robert Hodgson) 91

 

Eftir standa :

Haukar (Roni Leimu, Wayne Arnold, Predrag Novakovic) Skallagrímur (Dimitar Karadzovski, Jovan Zdravevski, Darrell Flake) Njarðvík (Jeb Ivey , Igor Beljanski, Brenton Birmingham-ÍSL) Keflavík (Sebastian Hermenier, nýr Bandaríkjamaður)

 

Flest lið eru með þrjá erlenda atvinnumenn, líkt og Þór. Ég tel Jason ekki með í þessu sambandi. Maðurinn er með íslenskan ríkisborgararétt, vann fyrir honum með því að búa hér í 7 ár (fékk ekki undanþágu eins og Brenton, Keith, Damon og Darryl) og búseta hans á Íslandi er ekki háð körfubolta. En hvers vegna er verið að taka Þór sérstaklega fyrir þegar næstum öll önnur lið eru með svipaðan fjölda af erlendum atvinnumönnum? Spyr sá sem ekki veit.

 

Sturla Stígsson

 

Mynd: www.kfi.is

Fréttir
- Auglýsing -