Liðin í 1. deild karla eru á fullu þessa dagana að safna liði fyrir komandi átök. Ljóst er að hart verður barist og spennandi deild er framundan.
Ármenningar tilkynntu í dag að liðið hefði samið við þekkta stærð í íslenskum körfubolta. Það er danski leikstjórnandinn Adama Darboe sem hefur ákveðið að söðla um og ganga til liðs við félagið í Laugardalnum.
Darboe var með 12 stig og 6 stoðsendingar í liði KR sem vann 1. deildina á nýafstaðinni leiktíð og fór beint uppí Subway deildina. Þar áður var hann með 14 stig og 6 stoðsendingar með Stjörnunni í Subway deildinni.
Tilkynningu Ármanns má finna í heild sinni hér að neðan:
Adama Darboe í Ármann
Það er með mikilli ánægju sem við tilkynnum að félagið hefur náð samkomulagi við Adama Darboe um að leika með Ármanni á komandi leiktíð.
Adama ættu allir körfuboltaáhugamenn að þekkja en hann hefur leikið með Grindavík, Stjörnunni og nú síðast KR á Íslandi. Hann er danskur 38 ára leikstjórnandi með gríðarlega reynslu.
Adama lék lengst af á sínum ferli með Bakken Bears í Danmörku sem hefur fyrir löngu stimplað sig inn sem langbesta félagið þar í landi. Þar lék hann meðal annars í meistaradeild evrópu og öðrum evrópukeppnum með Bakken.
Einnig á hann að baki fjölmarga landsleiki með landsliði Danmerkur og var um tíma landsliðsfyrirliði.
Á síðustu leiktíð lék hann stórt hlutverk með KR er liðið vann 1. deildina þar sem hann var með 12 stig og 6 stoðsendingar.
Koma Darboe í Ármann er því mikill hvalreki fyrir okkur og erum við stolt af því að svo reynslumikill leikmaður vilji koma hingað. Adama mun einnig þjálfa hjá félaginu.
Til gamans má geta að Adama þekkja margir í hverfinu en hann hefur síðustu tvö ár kennt við Laugalækjarskóla og mun gera áfram. Óhætt er að segja að hann hafi aflað sér mikilla vinsælda meðal ungmenna í hverfinu síðustu misseri og ekki minnkar það við undirskriftina í dag.
Við væntum mikils af samstarfinu við Adama og bjóðum hann hjartanlega velkominn í Ármann.
Fleiri fréttir af leikmannamálum eru væntanlegar.