Undanfarnar vikur hafa lið í Bónusdeild karla í körfubolta kappkostað að bæta við sig erlendum leikmönnum í von um að tryggja sér titilinn í vor. En er þetta skammtímalausn sem gleymir mikilvægustu grunnstoðunum í umgjörð íþróttaliða?
Ég hef starfað sem styrktarþjálfari síðan 2008 og spilaði sjálfur í úrvalsdeildinni með Haukum, Keflavík og ÍR. Ég hef þjálfað körfubolta á öllum getustigum og aðstoðað bæði lið og leikmenn við að bæta líkamlega þáttinn, stjórna álagi og skipuleggja æfingavikur út frá leikjaálagi. Ég tel mig því hafa ágætis þekkingu og reynslu á íþróttinni og því umhverfi sem við búum við.
Á síðustu misserum hef ég orðið var við aukna eftirspurn eftir einstaklingsmiðaðri styrktarþjálfun, sérstaklega frá leikmönnum sjálfum og jafnvel foreldrum yngri iðkenda. Af hverju? Vegna þess að mörg lið sinna þessum mikilvæga þætti alls ekki. Sum úrvalsdeildarlið, þrátt fyrir launakostnað upp á margar milljónir á mánuði, eru ekki með styrktarþjálfara í þjálfarateyminu. Í sumum tilfellum er enginn sem vinnur markvisst með líkamlegan þátt leikmanna, hvorki í yngri flokkum né í meistaraflokki. Sem betur fer eru sum lið sem sinna þessu vel og átta sig á mikilvæginu.
Ég hef unnið með leikmönnum sem eru jafnvel orðnir 18-19 ára og hafa aldrei sinnt skipulagðri styrktarþjálfun, sem er auðvitað galið því þessir leikmenn eru yfirleitt á 5 -10 æfingum á viku í sinni íþrótt. Þeir leikmenn sem átta sig á mikilvægi styrktarþjálfunar leita sjálfir til mín eða annarra styrktarþjálfara í einkarekstri. En hvers vegna þurfa leikmenn að sækja þessa þjónustu á eigin vegum þegar félögin gætu nýtt brot af sínum fjármunum í að ráða færa styrktarþjálfara?
Styrktarþjálfun og sjúkraþjálfun ættu að vera órjúfanlegur hluti af umgjörð íþróttaliða. Hún ætti að hefjast strax á unga aldri samhliða íþróttaiðkun. Styrktarþjálfun snýst ekki bara um að lyfta þungum lóðum því yngri iðkendur vinna að grunnstyrk og hreyfifærni til að takast á við stigvaxandi álag íþróttarinnar. Með því minnka líkur á álagstengdum meiðslum og leikmenn verða betur undirbúnir fyrir krefjandi keppnis umhverfi.
Af hverju eru sum lið ekki að ráðstafa hluta af þessum mikla launakostnaði í að ráða styrktar- og sjúkraþjálfara? Er þekkingin ekki til staðar? Ef við erum að reyna að taka skrefið í átt að því að vera atvinnumannadeild, þá þurfa þessir þættir að vera í lagi og það ætti að vera krafa frá leikmönnum að þeirra lið ráði til sín styrktarþjálfara sem sinnir þeim allt árið, ekki bara hluta úr ári eða rétt á undirbúningtímabilinu.
– Vilhjálmur Steinarsson fyrrum leikmaður og núverandi sjálfstætt starfandi styrktarþjálfari