spot_img
HomeBikarkeppniStjarnan bikarmeistari 10. flokks drengja

Stjarnan bikarmeistari 10. flokks drengja

Stjarnan varð í dag VÍS bikarmeistari í 10. flokki drengja eftir öruggan sigur gegn ÍR í úrslitaleik í Laugardalshöllinni, 80-112.

Fyrir leik

Stjarnan hefur verið besta lið landsins það sem af er deildarkeppni í 10. flokki drengja. Unnið fimmtán leiki og aðeins tapað einum, en þetta eina tap kom í upphafi tímabils gegn KR í Vesturbænum. ÍR er hinsvegar í 3. sæti deildarinnar með níu sigra og sjö töp það sem af er tímabili.

Gangur leiks

Stjarnan hafði tögl og haldir á leiknum frá fyrstu mínútu. Varnarlega eru þeir að búa til marga tapaða bolta hjá ÍR og sóknarlega komast þeir vel af stað, setja 32 stig í fyrsta leikhlutanum þar sem leikmaður þeirra Jakob Leifsson er kominn með 14, en staðan að loknum fyrsta er 18-32. Stjarnan gengur svo enn á lagðið í 2. leikhlutanum, gjörsamlega keyra yfir ÍR og eru 26 stigum yfir þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 37-63.

Stigahæstur fyrir Stjörnuna í fyrri hálfleiknum var Jakob Leifsson með 27 stig á meðan að Bjarni Jóhann Halldórsson var kominn með 20 stig fyrir ÍR.

Ef ÍR hafði gert sér einhverjar vonir um að komast aftur inn í leikinn þá kæfir Stjarnan þær í upphafi seinni hálfleiksins. Keyra forystu sína yfir 30 stigin og gera nánast útum leikinn á fyrstu fimm mínútum þriðja leikhlutans. Halda svo áfram og klára fjórðunginn sterkt, staðan 55-91 fyrir lokaleikhlutann. Eftir leikurinn virtist svo nokkuð einfaldur fyrir Stjörnuna, sem sigra leikinn gífurlega örugglega að lokum, 80-112.

Hver var munurinn?

Stjarnan hafði nokkra yfirburði í leik dagsins og segja má að þeir hafi verið komnir nokkuð lengra en ÍR á flestum sviðum íþróttarinnar. Varnarlega börðust þeir vel saman sem lið og þá höfðu þeir á að skipa gífurleg sóknargæði í leikmönnum sínum, þá kannski helst í Jakobi Leifssyni, sem var langsamlega besti leikmaður vallarins í dag.

Atkvæðamestir

Atkvæðamestur fyrir Stjörnuna í leiknum var Jakob Leifsson með 40 stig, 9 fráköst, 7 stoðsendingar og 7 stolna bolta. Honum næstur var Pétur Harðarson með 29 stig, 5 fráköst, 5 stoðsendingar og 4 stolna bolta.

Fyrir ÍR var Bjarni Jóhann Halldórsson atkvæðamestur með 30 stig, 5 fráköst og 5 stolna bolta. Þá bætti Hannes Gunnlaugsson við 20 stigum, 15 fráköstum og 4 stoðsendingum.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Bára Dtöfn)

Fréttir
- Auglýsing -