Stjarnan hafði betur gegn Keflavík í 10. umferð Bónus deildarinnar í Umhyggjuhöllinni í kvöld, 97-93.
Karfan spjallaði við Orra Gunn leikmann Stjörnunnar eftir leikinn.
Orri, góður sigur í kvöld! Það var kannski góður varnarkafli þarna fyrstu 5-6 mínúturnar í þriðja sem lagði grunninn að þessum sigri í kvöld?
“Já algerlega. Í síðustu leikjum höfum við verið að koma mjög sterkir inn í þriðja leikhluta, sérstaklega varnarlega og þá kemur sóknin með. Við höfum þá búið til smá forskot og oftast náð að halda því eins og við gerðum í dag. “
Já, þetta var 14-0 sprettur sem þið tókuð þarna…en þið náðuð þó ekki að slíta ykkur frá þeim enda er þetta Keflavíkurlið svo sem ekkert djók!?
“Nákvæmlega! Þeir eru með fullt af góðum leikmönnum eins og sést bara. Við reynum auðvitað að slíta þá frá okkur en ef það gerist ekki þá gerist það bara ekki en við reynum bara að vinna alla leiki auðvitað.“
Akkúrat. Þið náið allaveganna að halda einhverju 3-10 stiga forskoti og þá er þetta svona þægilegra, þá er minni hætta á einhverju svona fömbli, stressi og rugli?
“Já, nákvæmlega!“
Ég geri ráð fyrir að það sé góð stemmning í Stjörnuliðinu…?
“Já, það er mjög góð stemmning, þetta er bara alveg geggjaður hópur og ef að gengur vel þá er stemmningin náttúrulega bara mjög góð. Við ætlum að halda því áfram yfir í næsta leik og klára þetta með stæl fyrir jól.“
Akkúrat. Nú varst þú að spila síðast hér á landi með Haukum ásamt Hilmari Smára, þið eruð kannski bara góðir vinir?
“Já, ég myndi segja að við værum bara bestu vinir og finnst gaman að vera saman innan sem utan vallar og það er líka að hjálpa.“
Þið myndið ljómandi góða tvennu inni í þessari Stjörnuheild má segja?
“Já nákvæmlega, við komum hérna saman til Stjörnunnar og vorum búnir að tala um það áður en við skrifuðum undir að okkur langaði til að spila saman og það gekk upp…“
…einmitt…það hefur þróast þannig. Það er bara bjart yfir þessu – það verður gaman að fylgjast með ykkur í framhaldinu!