spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaStólarnir aftur á sigurbraut

Stólarnir aftur á sigurbraut

Tindastóll tók á móti Njarðvík í Bónus deild karla í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld. Stólar töpuðu fyrir Keflavík í deild og bikar síðustu helgi og höfðu ærið verkefni fyrir höndum.

Fyrir leik var ljóst að Adomas Drungilas yrði í banni og Sadio Doucure var meiddur þannig að Stólar voru án beggja stóru manna sinna í leiknum og mátti ætla að erfitt yrði að ráða við turnana tvo í Njarðvík, Mario og Milka. Leikurinn byrjaði með þrist frá Arnari Björns en Khalil svaraði að bragði og Milka einnig með and1 play undir körfunni. Gestirnir komust í 5-10 fljótlega en Stólar sýndu að þeir voru ekki mættir til að vera áhorfendur og sigu framúr þegar leið á leikhlutann. Mikill ákafi í varnarleik heimamanna skilaði þeim 23-6 kafla og Stólar leiddu 28-16 eftir fyrsta leikhluta.  Frábær stemning var í Síkinu og það efldi lið heimamanna sem gáfu hvergi eftir í öðrum leikhluta. Hálfleikstölur 47-33 eftir þrist frá Evans sem hafði farið rólega af stað.

Stólar komu ákveðnir inn í þriðja leikhlutann og eftir að Njarðvík hafði sett fyrstu fjögur stigin settu Stólarnir næstu 9 stig. Ákafinn í varnarleiknum hélt áfram og menn voru duglegir að skipta og hjálpa til, voru gríðarlega hreyfanlegir. Njarðvík náði muninum aftur niður í 11 stig en þá fengu þeir tvo þrista frá Geks í andlitið og Basile bætti 4 stigum við og munurinn kominn í 21 stig skyndilega og Rúnar tók leikhlé. Þristar frá Veigari og einn af spjaldinu frá Milka löguðu stöðuna aðeins en Basile sá til þess að heimamenn fóru með 17 stiga forystu inn í lokaleikhlutann. Veigar byrjaði fjórða leikhluta með þrist en Pétur Rúnar svaraði að bragði og Giannis bætti öðrum við af löngu færi. Stólar fengu högg en áttu alltaf högg á móti og varnarleikurinn hélt áfram að skila körfum hinumegin. Þjófnaður hjá Basile og karfa þegar rétt rúmar þrjár mínútur voru eftir innsiglaði sigurinn endanlega, staðan orðin 89-69 og Njarðvík átti engin svör.

Frábær liðssigur hjá heimamönnum og líklega einn besti leikur sem liðið hefur sýnt í vetur. Basile endaði stigahæstur en allir lögðu sitt af mörkum í stórgóðum slag. Vert er að nefna vasklega framgöngu Ragnars Ágústssonar, sem skilaði sínu hlutverki fullkomlega fyrir Tindastólsliðið í kvöld. Hjá Njarðvík var Evans að skila 27 stigum og 50% þriggja stiga nýtingu en öðrum var hreinlega haldið niðri af sterkri Tindastóls vörn þó Veigar hafi vissulega náð að setja 19 stig á töfluna. Gestirnir rústuðu frákastabaráttunni eins og búist var við en það dugði ekki.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

Umfjöllun, myndir, viðtal / Hjalti Árna

Fréttir
- Auglýsing -