Topplið Tindastóls tók á móti Álftnesingum í Bónus deild karla í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld. Búist var við skemmtilegum og spennandi leik sem varð svo sannarlega raunin.
Stólar skoruðu fyrstu körfu leiksins en svo tóku gestirnir við og komust í 2-7 með góðum spretti. Heimamenn komu til baka og náðu ágætis tökum á leiknum með hröðum leik. Staðan 29-21 að loknum fyrsta leikhluta.
Heimamenn byrjuðu annan leikhluta sterkt og komust í 12 stiga forystu um miðjan leikhlutann. Kjartan Atli tók leikhlé og gestirnir fóru að saxa niður forskotið. Þegar rétt um 2 og hálf mínúta voru til hálfleiks missti Adomas Drungilas stjórn á sér við dómara leiksins og var rekinn úr húsi fyrir ógnandi framkomu. Benni þjálfari fékk sína aðra tæknivillu í atganginum og fékk einnig að fjúka út. Álftnesingar gengu á lagið og náðu frábærum kafla fram að hálfleik 6-13 og enduðu með þristi frá Herði Axel. Staðan 55-59 í hálfleik og ekki oft sem maður sér útiliðið skora 38 stig í einum leikhluta í Síkinu.
Stólarnir byrjuðu seinni hálfleikinn með 12-2 áhlaupi og höfðu greinilega hrist af sér áfallið við að missa Benna og Drungilas. Ragnar Ágústsson kom geysisterkur inn á þessum kafla og vörnin var aftur farin að virka hjá heimamönnum. Basile kom sér oft á línuna og setti þrista líka og staðan 87-79 fyrir lokaleikhlutann. Gestirnir náðu að minnka muninn í 2 stig um miðjan fjórða leikhlutann en góð karfa frá Ragga og þristur frá Arnari rykktu heimamönnum aftur frá og þeir náðu svo að halda muninum síðustu 5 mínúturnar og lönduðu mjög sætum sigri.
Hjá Tindastól átti Basile algerlega frábæran leik, endaði með 29 stig og 8 stoðsendingar, 31 í framlag. Hlutur Ragnars Ágústssonar var einnig gríðarlega mikilvægur og hann endaði með 8 stig og 9 fráköst, þar af 7 sóknarfráköst. Dúi Þór endaði stigahæstur gestanna með 22 stig og Haukur Helgi var frábær í fyrri hálfleik en lenti í villuvandræðum í þeim seinni.
Flottur sigur Stóla sem halda sér á toppnum.
Umfjöllun / Hjalti Árna