Afreksstjóri Körfuknattleikssambands Íslands og fyrrum þjálfarinn Arnar Guðjónsson hefur hleypt af stokkunum vefsvæðinu Berjast.is, en með Arnari í verkefninu er leikmaður Stjörnunnar í knattspyrnu og yfirþjálfari yngri flokka hjá félaginu Hilmar Árni Halldórsson.
Tilgangur vefsvæðis og verkefnis Arnars og Hilmars mun vera að fræða leikmenn, þjálfara og foreldra um helstu atriði þjálfunar og íþróttaiðkunar með vinnustofum/fyrirlestrum.
Hérna er hægt að skoða Berjast.is
Þá hafa þeir Arnar og Hilmar tekið upp viðtöl við reynda þjálfara sem þeir munu gera aðgengileg á næstu vikum. Fyrstur til þessa hafa þeir rætt við knattspyrnuþjálfarann Kristján Guðmundsson, körfuknattleiksþjálfarann Lárus Jónsson og handknattleiksþjálfarann Óskar Bjarna Óskarsson, en öll eru viðtölin aðgengileg á öllum helstu hlaðvarpsveitum undir nafni síðunnar, Berjast.
Nú í þessari viku ræða þeir svo við fyrrum leikmanninn og þjálfarann Pavel Ermolinskij. Fer Pavel yfir víðan völl í viðtalinu, en meðal annars ræðir hann uppvaxtarár sín í Borgarnesi, þar sem körfubolti var í hávegum hafður á heimilinu. Nefnir hann í þeim skilningi að hann hafi alist upp á rússnesku heimili á Íslandi, þar sem áherslurnar hafi mögulega verið ólíkar því er viðgekkst á Íslandi með tilliti til þess að verða góður í íþróttum. Segir hann uppeldið hafa verið krefjandi, en að það hafi skilað sér.
Umræðan um körfuboltalegt uppeldi er að finna á mínútu 39:00 í viðtalinu, en allt er það hægt að hlusta á hér fyrir neðan.