spot_img
HomeLandsliðinEuroBasket 2025Einkunnir Íslands gegn Ítalíu – Kristinn Pálsson stórkostlegur

Einkunnir Íslands gegn Ítalíu – Kristinn Pálsson stórkostlegur

Hér að neðan má sjá einkunnir leikmanna íslenska liðsins úr leiknum gegn Ítalíu.

Hérna er meira um leikinn


Leikmönnum eru gefnar einkunnir útfrá tölfræði, væntingum til þeirra miðað við
hlutverk og spilatíma og líka þáttum sem sjást ekki endilega í tölfræðiskýrslunni.

Elvar Már Friðriksson 9
Virkilega góður leikur hjá Elvar sem sýndi heldur betur að hann á heima á stóra sviðinu. Ítalska vörnin réði ekkert við hann þegar hann fór á ferðina og hann sýndi gríðarleg klókindi í að sækja villur á mikilvægum augnablikum. Réði algerlega ferðinni í stærstu sóknum leiksins og fór oftar en undirritaður getur talið í gólfið að eltast við lausa bolta.
Skoraði 15 stig og kastaði inn 8 stoðsendingum líka.

Ægir Þór Steinarsson 7
Öflugur varnarlega eins og alltaf og gaf Elvari mikilvægt andrými sóknarlega þegar að boltapressa Ítala varð erfið. Gaf 5 stoðsendingar og stal 2 boltum ásamt því að vinna mínúturnar sem hann var á vellinum með 12 stigum.

Jón Axel Guðmundsson 9
Þetta var sá Jón Axel sem maður vill alltaf sjá. Í hvert einasta skipti sem íslenska sóknin virtist vera í vandræðum. Þá var hægt að koma boltanum á Jón sem smíðaði gott skot fyrir sjálfan sig eða félaga sína. Einn besti landsleikur hans á ferlinum. Skilaði 15 stigum og 5 fráköstum ásamt því að spila vörn á sér mun hærri menn allan leikinn. Fyrirmyndarframmistaða hjá Jóni, óaðfinnanlegur.

Haukur Helgi Pálsson 7
Haukur kemur alltaf með ákveðna ró á mikilvægum augnablikum en komst aldrei í takt við leikinn sóknarlega. Skotið nokkuð flatt og var ekki að detta. Var oft mikilvægur varnarlega.

Tryggvi Snær Hlinason 8
Tryggvi byrjaði sterkt og var mikilvægur í sókninni framan af því Ítalirnir voru duglegir að tvöfalda á hann og hann skilaði boltanum hratt á samherja sína. Mikilvægi Tryggva kom svo í ljós í fjórða leikhluta. Hann gjörsamlega lokaði teignum og ef menn gerðust svo djarfir að voga sér að hringnum þá klíndi Tryggvi boltanum í spjaldið eða sló hann útaf. Hann átti einnig nokkra slætti út úr teignum eftir sem teljast ekki í tölfræðinni sem sóknarfráköst sen eru ástæðan fyrir því að Ísland náði boltanum aftur á mikilvægum augnablikum.

Styrmir Snær Þrastarson 8
Frábær innkoma hjá Styrmi sem spilaði ekki stórt hlutverk í leiknum á föstudaginn. Var frábær í því að keyra upp hraðann og rífa liðið af stað strax eftir varnarfráköst. Spilaði einnig vel í sendingarlínunum varnarlega og gerði Ítölunum erfitt fyrir að færa boltann
hratt á milli kanta. Minnti á köflum á hinn franska Jackson Richardsson sem er handboltaáhugamönnum að góðu kunnur.

Styrmir sýndi líka styrk sinn í því að klára eftir að brotið hafi verið á honum. 9 stig í 6 skotum og 6 fráköst.

Kristinn Pálsson 10
Hvað getur maður sagt. Kiddi fokking Páls. Fullkomlega óaðfinnalegur leikur hjá Kristni í kvöld. Virkilega góður varnarlega og gerði vel í því að halda Ítölunum frá sóknarfráköstunum. En hvað er ég að fjasa um það. Kiddi setti 22 stig með 87% skotnýtingu og var stærsti hvatberinn í því að Ísland vann sinn stærsta útisigur í sögunni. Véfréttin gefur ekki oft 10/10 (eins og Tommi Steindórs myndi segja).

En það er ekki hægt annað. Maður leiksins.

Hilmar Henningsson 7
Orkumikil innkoma þó skotin hafi ekki dottið.

Sigtryggur Arnar Björnsson 7
Var að setja mikilvæg stig á tímapunkti þegar að íslenska liðið átti í virkilegum vandræðum með að koma boltanum í körfuna.

Bjarni Guðmann Jónsson 8
Yfirleitt myndi Bjarni ekki fá einkunn því hann spilaði í minna en fimm mínútur.
Hann hins vegar nýtti þessar mínútur til hins ítrasta. Var réttur maður a réttum stað á nokkrum augnablikum og það sem hann gerði best er það sem hann kom inn á til að gera: Berjast.

Orri Gunnarsson (spilaði ekki nóg)
Kári Jónsson (spilaði ekki nóg)

Fréttir
- Auglýsing -