spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaStjörnusigur í kaflaskiptum leik

Stjörnusigur í kaflaskiptum leik

Stjarnan lagði Val í N1 höllinni í kvöld í 7. umferð Bónus deildar kvenna. Eftir leikinn er Stjarnan með þrjá sigra og fjögur töp á meðan Valur er með tvo sigra og fimm töp það sem af er.

Fyrir leik

Hvorugu liði hafði gengið neitt sérstaklega vel í síðustu umferðum. Bæði tapað síðustu tveimur leikjum sínum og því ljóst að bæði væru þau líkleg til þess að mæta dýrvitlaus til leiks.

Valur verið án þjálfara síns Jamil Abiad síðustu daga, en hann var kominn aftur á bekkinn hjá þeim í leik kvöldsins. Liðið saknaði þó enn síns besta íslenska leikmanns í Ástu Júlíu Grímsdóttur. Ásta Júlía þó einnig á bekk Vals í kvöld, en í borgaralegum klæðum vegna meiðsla.

Gangur leiks

Það var mikill kraftur í gestunum úr Garðabæ í upphafi leiks og eru þær snöggar að skapa nokkuð verulegt bil á milli sín og heimakvenna. Munurinn 19 stig að loknum fyrsta fjórðungs, 10-29. Óhætt er að segja að heimakonur hafi sýnt ágætan vilja til að vinna sig inn í leikinn í öðrum leikhlutanum. Að sama skapi virtist aðeins hafa dregið af þeim mikla krafti sem Stjarnan mætti með til leiks í kvöld. Hægt en örugglega vinna þær forskot Stjörnunnar niður undir lok fyrri hálfleiksins og er jafnt þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 44-44.

Stigahæst heimakvenna í fyrri hálfleiknum var Jiselle Thomas með 15 stig á meðan Ana Clara Paz og Denia Davis Stewart voru komnar með 14 stig hvor fyrir Stjörnuna.

Vel inn í þriðja leikhlutann helst leikurinn jafn. Liðin skiptast á snöggum áhlaupum og virðist vörn þeirra beggja oftar en ekki halda nokkuð vel. Stjarnan nær þó aftur góðum tökum á leiknum undir lok fjórðungsins og er munurinn 9 stig fyrir lokaleikhlutann, 54-63. Stjarnan gekk svo enn á lagið í upphafi fjórða leikhlutans. Opna hann á sterku 4-12 áhlaupi og eru þægilegum 17 stigum yfir þegar rúmar fimm mínútur eru til leiksloka, 58-75. Heimakonur gera hvað þær geta til að komast aftur inn í leikinn á lokamínútunum, en allt kemur fyrir ekki. Stajran fer með sigur af hólmi, 66-81.

Atkvæðamestar

Besti leikmaður vallarins í kvöld var leikmaður Stjörnunnar Denia Davis Stewart, en hún skilaði 30 stigum og 17 fráköstum. Henni næst hjá Stjörnunni var Diljá Ögn Lárusdóttir með 19 stig, 9 fráköst og 6 stoðsendingar.

Fyrir Val voru atkvæðamestar Jiselle Thomas með 23 stig, 6 fráköst og Alyssa Cerino með 16 stig og 10 fráköst.

Hvað svo?

Bæði lið eiga leik næst komandi þriðjudag 26. nóvember. Þá fær Stjarnan lið Þórs Akureyri í heimsókn og Valur heimsækir Njarðvík.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -