Haukar höfðu betur gegn Grindavík í Smáranum í kvöld í 7. umferð Bónus deildar kvenna, 68-85.
Eftir leikinn eru Haukar í efsta sæti deildarinnar með sex sigra og eitt tap á meðan Grindavík er um miðja deild með þrjá sigra og fjögur töp.
Eftir nokkuð jafnar upphafsmínútur náðu Haukar góðum tökum á leiknum undir lok fyrri hálfleiks og leiddu með 10 stigum þegar liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik. Í upphafi seinni hálfleiksins gera þær svo vel að halda í fenginn hlut og bæta aðeins í fyrir lokaleikhlutann. Í honum hleypa þær heimakonum aldrei innfyrir 10 stiga múrinn og eftir nokkuð sterkar lokamínútur uppskera þær öruggan 17 stiga sigur, 68-85.
Atkvæðamestar í liði Hauka í leiknum voru Lore Devos með 28 stig, 10 fráköst og Sólrún Inga Gísladóttir með 14 stig og 4 stoðsendingar.
Fyrir Heimakonur var Katarzyna Anna Trzeciak með 21 stig og Isabella Ósk Sigurðardóttir var með 7 stig og 15 fráköst.