spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaNeyðarkallinn Andrew Jones

Neyðarkallinn Andrew Jones

Álftnesingar hafa heldur betur rétt úr kútnum á tímabilinu, eftir töp í fyrstu þremur leikjunum hefur liðið komið sér á núllpunkt með þremur sigrum í röð. Tveir sigranna komu reyndar gegn botnliðunum og voru ekki svo mjög sannfærandi – undirritaður vændi Álftirnar hreinlega um þjófnað á Völlunum í síðustu umferð! Liðið þarf sennilega að sýna betri leik í kvöld gegn Grindvíkingum ætli það sér stigin tvö.

Gestirnir í Forsetahöllinni í kvöld hafa farið nokkuð vel af stað í vetur, 8 stig komin í pokann og töpin tvö hafa komið gegn toppliðunum, Stjörnunni og Tindastóli. Að vísu hafa Grindjánar líkt og andstæðingar þeirra í leik kvöldsins tekið 4 stig frá botnliðunum. En svona blaður skiptir svo sem engu máli, við skulum forvitnast um úrslitin fyrirfram hjá Kúlunni.

Kúlan: ,,Iss, það er létt og löðurmannlegt verkefni að spá fyrir um þennan, Álftanes hefur unnið botnliðin og nýliðana! Grindvíkingar taka þennan nokkuð örugglega, 84-96.“

Byrjunarlið

Álftanes: Okeke, Haukur, Klonaras, Hössi, Jones

Grindavík: Mortensen, Óli Óla, Kane, Tomas, Kristófer Breki

Gangur leiksins

,,Að koma flatir út“ er óþolandi frasi en það er ekki hægt annað en að nota hann til að lýsa byrjun gestanna í þessum leik. Heimamenn byrjuðu miklu betur, Okeke skoraði að vild undir körfunni og Dúi kom svo inn á og setti stöðuna í 14-4. Þrátt fyrir leikhlé Jóhanns Árna hélst sami taktur út fyrsta leikhluta, staðan 30-20 að honum loknum.

Grindvíkingar hresstust nokkuð sóknarlega í öðrum leikhluta. Kane setti snögg 5 stig og um miðjan leikhlutann voru aðeins 4 stig á milli liðanna, 39-35. Varnarlega var þetta hins vegar enn frekar flatt hjá gestunum  og Álftnesingar héldu áfram að raða niður stigum. Liðin skiptust á nokkrum stuttum sprettum í leikhlutanum en útlitið var enn nokkuð gott í hálfleik fyrir heimamenn sem leiddu 54-45. Heimamenn skutu 65% í tveggja stiga skotum og 46% í þristum í fyrri hálfleik sem er býsna gott en linur varnarleikur gestanna á vafalaust sinn þátt í því.

Jóhann Þór, þjálfari Grindvíkinga, var vant við látinn í kvöld og nafni hans Árni virðist ekki hafa neglt hálfleiksræðuna. Álftnesingar hófu seinni hálfleikinn með 8-1 spretti, munurinn 16 stig, 62-46, og tækifæri fyrir heimamenn að slíta sig frá gestunum. Daninn snjalli Mortensen var hins vegar heitur í kvöld, setti nokkrar körfur á þessum kafla og hélt sínum mönnum inn í þessu. Fyrir lokaátökin hafði Grindjánum tekist að naga forskotið niður í aðeins 5 stig, staðan 73-68.

Mortensen opnaði lokaleikhlutann með þristi og hann virtist opna flóðgáttirnar fyrir gestina. Devon Tomas kom gestunum yfir stuttu síðar 73-75 í fyrsta sinn í leiknum! Álftnesingar leiddu fyrstu 32 mínúturnar og undirritaður velti fyrir sér hvort karma frá síðasta leik myndi nú bíta heimamenn í rassinn. Enn voru 8 mínútur eftir af leiknum og þær voru spennandi og skemmtilegar. Grindvíkingum tókst að hanga 1-4 stigum yfir nánast út leikinn en þeir fóru í sókn einu stigi yfir þegar 35 sekúndur lifðu leiks. Varnarleikur heimamanna var hins vegar alveg til fyrirmyndar, þeir náðu góðu stoppi og hver annar en neyðarkallinn Andrew Jones setti sigurkörfuna þegar 1,3 sekúndur voru eftir af leiktímanum! Síðasta sekúndan dugði ekki gestunum og lokatölur urðu 90-88 í góðum og sanngjörnum sigri Álftnesinga.

Menn leiksins

Andrew Jones er einn af þeim sem er ekki endilega mjög áberandi á vellinum og tölfræðiskýrslan kemur manni jafnvel á óvart. Hann setti 19 stig í kvöld, tók 7 fráköst og gaf 5 stoðsendingar sem er auðvitað frábært. Hann setti jú líka sigurkörfuna, það fór ekki framhjá neinum. Okeke hefur svo verið frábær í vetur fyrir Álftnesinga og var stigahæstur í leiknum með 20 stig og tók 8 fráköst.

Mortensen var stigahæstur gestanna með 25 stig en DD Kane skilaðu þó meiru heildina á litið eins og oft áður, setti 17 stig, tók 8 fráköst og gaf 6 stoðsendingar.

Kjarninn

Nú er allt í sóma á Nesi álfta! Það er stutt á milli í þessu, Jones setti sigurkörfuna í blálokin eftir að gestirnir höfðu leitt leikinn í 7 mínútur og 59 sekúndur þar á undan! Að mati undirritaðs áttu þó heimamenn skilið að vinna þennan leik og Kjartan Atli tók heilshugar undir það í góðu spjalli eftir leik.

Ef einhver hefur góða skýringu á því af hverju það brennur við að íþróttalið ,,komi flöt“ inn í leiki þá getur sá hinn sami fengið vinnu hjá hvaða íþróttafélagi sem er! Hann gæti t.d. byrjað á því að tala við Grindvíkinga. Ekki er víst að sjónvarpið hans Jóhanns Þórs sé í heilu lagi þessa stundina en við skulum ekki dramatísera þetta of mikið – tímabilið er bara rétt að byrja.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -