spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaHrunamenn unnu Skallagrím á Flúðum

Hrunamenn unnu Skallagrím á Flúðum

Á bóndadagskvöld fór fram í íþróttahúsinu á Flúðum leikur í 1. deild karla þar sem Hrunamenn léku gegn Skallagrími úr Borgarnesi. Bæði lið töpuðu í síðustu umferð, Skallagrímur heima gegn Hamri en Hrunamenn fyrir Sindra á Hornafirði. Kjarna beggja leikmannahópa mynda ungir heimamenn, en meginstoðir liðanna eru þó aðkomumenn.

Heimamenn byrjuðu leikinn afar vel. Í stöðunni 15 – 6 tók Atli þjálfari Skallagríms leikhlé. Skallagrímur saxaði á forskotið og náði að komast yfir tvisvar undir lok fyrsta leikhluta, sem endaði 23 – 23.

Nebojsa Knezevic fór hægt af stað hjá Skallagrími, stigaskor hans var á pari við aðra leikmenn liðsins, þeir voru margir að skila stigum fyrir liðið, enginn leikmaður þeirra skoraði fleiri en 10 stig í fyrri hálfleik. Á meðan var mesti broddurinn í Hrunamanna í framlagi Corey Taite, Karlo Lebo og Florjian Jovanov. Liðin léku bæði maður á mann vörn þangað til í síðustu tveimur sóknum Skallagríms þar sem Hrunamenn prófuðu að beita svæðisvörn með ágætum árangri. Þegar blásið var til leikhlés var staðan 56 – 44 heimamönnum í vil. Þá hafði Corey skorað 32 stig.

Hrunamenn hófu síðari hálfleik illa. Mikillar óþolinmæði gæddi í sóknarleiknum og varnarleikurinn var heldur ekki burðugur. Skallagrímur nálgaðist Hrunmenn og hefði með meiri klókindum getað valtað yfir þá á þessum kafla leiksins. En það tókst þeim þó ekki. Árni Þór tók leikhlé, reyndi aftur svæðisvörnina. Sóknarleikur heimamanna var áfram stirður og oft var skotvalið lélegt og góðu skotin fóru ekki nægilega mörg niður. Skallagrímur lék varnarafbrigðið „box one out“ á þessum tíma í leiknum og tókst með því að trufla sóknarleik Hrunamanna verulega. Skallarnir voru betra liðið í 3. leikhluta, en vegna þess hversu illa Skallagrímsmönnum gekk að brjóta svæðisvörn Hrunamanna á bak aftur leiddu heimamenn áfram að loknum þriðja leikhluta með þremur stigum, 67-63.

Í 4. leikhluta komust Skallarnir yfir í skamma stund. Sóknarleikur Hrunamanna lagaðist til muna en um leið lagaðist líka leikur Skallagríms. Í 4. leikhluta var leikurinn hin mesta skemmtun. Naum forysta heimamanna hélt. Corey var frábær þegar hann náði að komast í boltann og svæðisvörnin sem heimamenn beittu við og við skilaði nokkrum stolnum boltum.

Staðan var 87-85 þegar hálf mínúta var eftir af leiktímanum. Nebojsa fékk þá 2 vítaskot fyrir Skallagrím eftir að Corey braut á honum og fékk sína 5. villu. Hrunamenn hefðu sjálsagt lítið að gera í framlengingu án síns langbesta leikmanns. Nebojsa hitti úr fyrra skotinu en ekki því síðara og heimamenn náðu frákastinu. Eftir leikhlé brutu Skallarnir á Florjian Jovanov sem setti annað vítið af tveimur niður og lokatölurnar 88-86.

Corey Taite var allt í öllu í leik Hrunamanna. Hann skoraði 49 stig, tók 9 fráköst, stal 4 boltum og gaf 7 stoðsendingar. Florjian skoraði 16 stig og hirti 13 fráköst. Hann var góður í svæðisvörninni. Karlo gerði 13 stig og tók 8 fráköst. Dagur Úlfarsson átti góða innkomu í fyrri hálfleik og lék mjög vel á lokakaflanum. Halldór Fjalar lék vel framan af leiknum, einkum í vörn þar sem honum gekk prýðilega að eiga við hinn leikreynda og trausta Nebosja. Eyþór Orri hitti illa en átti annars ágætan leik.

Hjá Skallagrími bar mikið á Hjalta Ásberg og Marínó Þór. Báðir hafa þeir gott auga fyrir spili og skiluðu mörgum fallegum stoðstendingum fyrir sitt lið. Bandaríkjamaðurinn Mustapha skoraði 20 stig og tók 11 fráköst og auðvitað skilaði Nebojsa drjúgu framlagi þótt hann hafi oft leikið betur og hitt betur.

Í næstu umferð fá Borgnesingar Selfyssinga í heimsókn og Hrunamenn mæta liði Álftaness á Flúðum.

Umfjöllun / Karl Hallgrímsson

Myndir / Birgitte Brugger

Fréttir
- Auglýsing -