Stjörnumenn tóku á móti Þórsurum frá Þorlákshöfn í Domino’s deild karla í fyrri leik föstudagskvöldsins í Mathús Garðabæjar höllinni. Stjörnumenn höfðu fyrir leikinn unnið alla þrjá leiki sína í deildinni, síðast í naglbít gegn nöfnum andstæðinga kvöldsins á Akureyri, en Þórsarar höfðu tapað fyrstu tveimur leikjum eftir Covid-pásuna.
Óhætt er að segja að varnir liðanna hafi ekki verið sérlega áberandi í fyrsta leikhluta, en bæði lið skoruðu án afláts til að byrja með. Gunnar Ólafsson smellti niður nokkrum þristum fyrir heimamenn, en gestirnir svöruðu jafnan með auðveldum körfum inni í teig, þar sem Adomas Drungilas tók mikið til sín. Eftir fyrsta fjórðung hafði 61 stig verið skorað í leiknum, og leiddu gestirnir með einu stigi, 30-31. Stjörnumenn voru ögn beittari í öðrum leikhluta, og náðu sérstaklega að stoppa upp í götin í vörninni. Staðan í hálfleik var 54-50, Garðbæingum í vil.
Í upphafi síðari hálfleiks virtust heimamenn hafa yfirhöndina, og höfðu náð sjö stiga forystu, 67-60 þegar um þrjár mínútur voru búnar af seinni hálfleik. Þá tóku Þórsarar hins vegar til sinna ráða og náðu 16-4 áhlaupi, með fjórum þristum og tveimur auðveldum sniðskotum, og var staðan þá skyndilega orðin 71-76, gestunum í vil. Þá forystu létu Þórsarar aldrei af hendi, og eftir ótrúlega skotsýningu í seinni hálfleik unnu gestirnir að lokum ellefu stiga sigur, 100-111.
Hvers vegna vann Þór?
Þórsarar buðu upp á frábæran sóknarleik í seinni hálfleik, með ótrúlegri skotnýtingu, sem leiddi til sigurs þeirra. Alls hittu gestirnir úr 60% þriggja stiga skota sinna í kvöld, þar af tólf af fimmtán þristum í seinni hálfleik. Stjörnumenn gerðu ágætlega sjálfir, með 100 stig og 59% skotnýtingu, þar af 36% úr þristum, en áttu fá svör við skotsýningu gestanna.
Hver var bestur?
Adomas Drungilas var mjög öflugur í liði Þórs, tók mikið til sín og átti í hörkubaráttu við Hlyn Bæringsson undir körfunni, en Adomas skoraði 20 stig og tók 14 fráköst. Þá voru þeir Emil Karel Einarsson, Ragnar Örn Bragason og Styrmir Snær Þrastarson virkilega flottir, en Emil Karel og Ragnar Örn voru aðalvítamínsprauturnar í skotsýningu gestanna í seinni hálfleik, á meðan Stjörnumenn áttu í stökustu erfiðleikum með að hindra Styrmi Snæ í að keyra að körfunni.
Hjá heimamönnum voru Ægir Þór Steinarsson og Gunnar Ólafsson stigahæstir með 24 stig hvor.
Framhaldið
Næsti leikur Stjörnunnar er eftir tvo daga, þegar þeir mæta Haukum að Ásvöllum á sunnudagskvöldið klukkan 19:15. Degi síðar, mánudaginn 25. janúar, taka Þórsarar svo á móti ÍR.