Tindastóll tók á móti taplausu toppliði Stjörnunnar í Bónus-deild karla í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld. Stjarnan hafði lagt Grindavík í síðustu umferð á meðan Stólar völtuðu yfir Hött.
Leikurinn var barningur frá byrjun og ekkert sem skildi liðin að. Bæði lið voru mætt til að sækja sigur og ekkert gefið eftir. Heimamenn náðu að rykkja aðeins frá gestunum um miðjan fyrsta leikhluta og opnuðu 11 stiga mun með 2 vítum frá Pétri Rúnari eftir þrista frá Hannesi og Basile. Baldur tók leikhlé og Stjarnan kom til baka og skoruðu næstu 6 stig en Pétur svaraði með þristi og Síkið á suðupunkti strax í fyrsta leikhluta. Ægir Þór byrjaði annan leikhluta með 5 stigum eftir T á Pétur og staðan orðin jöfn 28-28. Stólar tóku þá annað áhlaup og þristur frá Geks kom heimamönnum aftur 11 stigum yfir, 44-33. Stjörnumenn löguðu leikinn aðeins en það voru Stólar sem leiddu í hálfleik 55-45. Frábært tempó í leiknum og mun meira skorað en maður bjóst við fyrir leik.
Stjörnumenn byrjuðu seinni hálfleik með mikilli ákefð og komust yfir eftir 2 og hálfa mínútu eftir að Benni fékk tæknivillu. Basile setti undir lekann með þrist og svo hélt baráttan áfram þar sem liðin skiptust á að skora. Arnar Björnsson hrökk í gang og setti 7 stig í röð til að halda Stólum á floti og Drungilas, sem átti frábæran leik, sá til þess að Stólar höfðu eins stigs forystu fyrir lokaleikhlutann. Basile og Drungilas sáu svo til þess að heimamenn sigu aðeins framúr í upphafi fjórða leikhluta 83-76 þegar rúmar 7 mínútur voru eftir. Hilmar Smári svaraði með þrist og Stjörnumenn hertu vörnina og jöfnuðu 83-83 þegar tæpar 4 mínútur voru eftir. Síkið að fara á límingunum og alvöru úrslitakeppnisstemning í húsinu. Enn var jafnt 87-87 þegar ein og hálf mínúta var eftir en Geks og Drungilas tryggðu heimamönnum sætan sigur auk þess sem vörnin stóð frábærlega gegn gestunum síðustu mínútuna. Lokatölur 92-87 og mikið fagnað í Síkinu.
Drungilas stóð uppúr annars jöfnu liði heimamanna með 25 stig og 9 fráköst. Allir byrjunarliðsmenn komust í tveggja stafa tölu í stigaskorun og Pétur bætti við 7 stigum af bekknum. Leikurinn var harður en dómararnir misstu þó aldrei stjórn á honum og héldu góðri línu. Hjá gestunum átti Jase frábæran leik með 17 stig og 12 fráköst en Orri endaði stigahæstur með 18 stig. Gestirnir unnu frákastabaráttuna nokkuð afgerandi þó það hafi ekki dugað til.
Myndasafn (væntanlegt)
Umfjöllun, myndir, viðtal / Hjalti Árna