Álftnesingar höfðu betur gegn ÍR í Forsetahöllinni í kvöld í 5. umferð Bónus deildar karla, 93-87. Eftir leikinn er Álftanes með tvo sigra og þrjú töp á meðan að nýliðar ÍR leita enn að fyrsta sigurleik vetrarins.
Það voru heimamenn í Álftanesi sem hófu leik kvöldsins betur og voru sex stigum yfir eftir fyrsta leikhluta. Gestirnir úr Breiðholti ná þó að svara nokkuð vel undir lok fyrri hálfleiks og munar aðeins tveimur stigum á liðunum er þau halda til búningsherbergja í hálfleik.
Gestirnir ná svo góðu áhlaupi í upphafi seinni hálfleiksins, fara mest ellefu stigum á undan í þriðja leikhlutanum, en munurinn fyrir lokaleikhlutann er þó aðeins fimm stig. ÍR er svo áfram með forystuna vel inn í þann fjórða, en undir lokin nær Álftanes að vinna forskotið niður og vinna leikinn að lokum nokkuð þægilega þó munurinn hafi ekki verið mikill, 93-87.
Atkvæðamestir heimamanna í leiknum voru Andrew Jones með 23 stig, 8 fráköst og David Okeke með 17 stig og 12 fráköst.
Fyrir gestina úr Breiðholti var það Jakob Falko sem dró vagninn með 32 stigum, 6 fráköstum og 4 stoðsendingum. Honum næstur var Matej Kavas með 18 stig og 3 fráköst.
Bæði lið eiga leik næst komandi fimmtudag 8. nóvember, en þá tekur ÍR á móti Keflavík í Skógarseli og Álftanes heimsækir Hauka í Ólafssal.